Í leit að samhliða veröldum í öðrum víddum

Eðlisfræðingar vilja nú nota sterkeindahraðalinn í CERN til að reyna að finna samhliða alheima. Lykillinn að því segja þeir að það yrði að finna smásvarthol á ákveðnu orkustigi sem þeir hafa spáð fyrir um.

Sterkeindahraðallinn (e. Large Hadron Collider)
Sterkeindahraðallinn (e. Large Hadron Collider)

Mir Faizal, einn rannsakenda, segir fjölheimakenningu skammtafræðinnar, þar sem allar mögulegar útkomur eru til í öðrum alheimi, meira eins og heimspeki því við getum ekki rannsakað hana. Það sem þeir vilja finna eru alvöru samhliða alheimar í öðrum víddum.

Þeir hafa sett fram tilgátu um regnboga þyngdarkrafta (e. gravity’s rainbow) sem reynir að bæta fyrir hluta afstæðiskenningarinnar sem skekkjast í agnarsmárri veröld skammtafræðinnar. Þeir hafa útreikninga sem benda til þess að þeir geti fundið lítil svarthol á ákveðnu orkustigi, sem myndi sanna tilvist hliðarveralda og styrkja kenningar strengjafræðinnar. Strengjafræðin reynir að útskýra misræmi milli afstæðiskenningarinnar og skammtafræðinnar.

Sterkeindahraðallinn í CERN er stærsti eindahraðall í heimi en hann hraðar sterkeindum í sín hvora áttina eins nálægt ljóshraða og þær komast. Síðar rekast þær saman og vísindamenn greina agnirnar sem myndast. Hraðallinn hefur áður verið notaður í leit að smásvartholum en þeir telja að þeir þurfi aðeins meiri orku í þetta skiptið. Áður leituðu þeir á orkustigi minna en 5,3 TeV. Nýja tilgátan þeirra bendir til að smásvarthol geti myndast í 6 víddum með 9,5 TeV og 10 víddum með 11,9 TeV.

Hraðallinn ætti vel að ráða við það eftir viðgerðir og uppfærslur en hann hefur ekki verið notaður eftir frægu rannsókn hans á Higgs-bóseindinni. Sjáðu myndband um hana hér.

Heimildir: Eitt og Tvö

Þetta líkar mér

One comment

Lokað er á athugasemdir.