Lífmassi gróðurs í kolefnum hefur aukist um 4 milljarða tonn á einum áratugi, þrátt fyrir mikla skógareyðingu í Amazon skóginum og víðar.

Vísindamenn hafa þróað leið til að mæla breytingar í lífmassa gróðurs á jörðinni. Þá mæla þeir breytingar í útvarpsbylgjum, sem Jörðin gefur frá sér, með gervihnetti. Geislunin breytist eftir hitastigi, raka og aðstæðum á yfirborðinu. Á árunum 2003-2012 jókst lífmassi gróðurs um 4 milljarða tonna af kolefni.
Þessar fréttir koma á óvart enda heyrir maður varla annað um skóga en hvað þeir eru eyðilagðir miskunnarlaust. Rannsóknin sýndi gífurlegt tap í lífmassa í Amazon skóginum og í Indónesíu. Til móts við það hafa skógar sprottið upp í Ástralíu, Afríku, Suður-Ameríku, og á auðum beitilöndum í Rússlandi eftir hrun kommúnismans. Kínverjar hafa einnig verið mjög duglegir að gróðursetja en þeir hafa gróðursett um 70 milljarða trjáa síðan 1978, og er það partur af áætlun þeirra að reisa annan Kínamúr – í þetta skiptið, grænan.
Vísindamenn áætla að gróður Jarðarinnar gleypi um fjórðung koltvísýrings af manna völdum og höfin sjá um annan fjórðung. Það þýðir að um helmingur koltvísýrings sem ausast í andrúmsloftið af okkar völdum situr þar eftir og ýtir undir loftslagsbreytingar. Við eigum því langt í land, en allt er vænt sem vel er grænt.