Ný og spennandi tegund krabbameinsmeðferðar

Tvær helstu meðferðir krabbameina í dag eru ónæmismeðferðir, þar sem ónæmiskerfi líkamans er örvað og hvatt til að berjast við krabbameinið, og persónuleg lyfjameðferð, þar sem lyfjagjöf er sérsniðin að genamengi sjúklingsins. Nú hafa vísindamenn sameinað þessar tvær aðferðir í eina, vonandi, skothelda krabbameinsmeðferð.

húðkrabbi

Í þessari meðferð er sérsniðið bóluefni hannað fyrir hvern og einn sem hvetur ónæmiskerfið til að gera hnitmiðaða árás á æxli sjúklingsins. Fyrstu prófanir á mönnum komu vel út þegar þrír einstaklingar með húðkrabba sýndu eftirsótt viðbrögð við nýju bóluefnunum. Rannsóknin er þó enn á grunnstigi og því ekki óhætt að fullyrða um niðurstöður.

Krabbameinsæxli eru aldrei eins sem gerir þau að afar erfiðu viðfangsefni. Í þessari meðferð eru æxli fjarlægð með aðgerð og genamengi þeirra greind. Þá greina þeir gerðir sérstakra mótefnavaka (e. antigen) á yfirborði krabbameinsfrumna og hanna síðar mótefni (e. antibody) sérsniðin að þessum mótefnavökum. Læknar líkja þessu við að ónæmiskerfið hafi nú leyniskyttu sem skjóti niður merktar frumur í stað þess að reyna að sprengja upp æxlið. Þannig vonast þeir til þess að minnka skaðleg áhrif og aukaverkanir lyfjameðferða.

Aðferðin er enn á þróunarstigi en hún er alltof tímafrek að þeirra mati eins og er. Það tók teymið um þrjá mánuði að hanna þetta bóluefni fyrir einn sjúkling sem er of mikill tími fyrir marga. Þau vonast til að stytta framleiðslutímann í 4-6 vikur með tímanum en fyrst vildu þau athuga hvort efnið væri öruggt og hvort það myndi virka á ónæmiskerfið.

Heimild: ScienceAlert