Segulómskoðun sýnir hvernig menn réttlæta morð

Ný rannsókn leiðir í ljós hvernig mannfólk getur myrt í vissum aðstæðum. Virkni heilans er mismunandi eftir því hvernig aðrir líta á morðið.

Virkni heila skoðuð með segulómskoðun.
Virkni heila skoðuð með segulómskoðun.

Rannsóknin er leidd af sálfræðingnum Dr Pascal Molenbergh. Þátttakendur í rannsókninni voru látnir spila tölvuleiki þar sem þeir áttu að ímynda sér sig vera að skjóta annaðhvort saklausa borgara eða óvini í “vonda liðinu.” Þar er ein tegund ofbeldisins réttlætt af sumum en hin ekki. Virkni heila þátttakenda var mæld með segulómskoðun (fMRI – functional magnetic resonance imaging).

Niðurstöður veita okkur mikilvægan skilning á hegðun manna í sumum aðstæðum eins og t.d. stríði, þar sem menn fremja viðbjóðsleg voðaverk gegn hvor öðrum.

Þegar þátttakendur ímynduðu sér sig vera að skjóta saklausa borgara mældist mikil virkni í heilaberki, nánar tiltekið augntóttarhluta ennisblaða (orbitofrontal cortex), svæði sem segir til um siðferðilega hegðun. Meiri virkni þar þýðir meira samviskubit. Siðblindir einstaklingar t.d. hafa enga virkni á því svæði. Til samanburðar mældist engin virkni þegar þátttakendur ímynduðu sér sig vera að skjóta óvini í “vonda liðinu”. Því virðist sem það taki alla pressu af okkur ef við teljum aðra samþykka, og jafnvel ábyrga fyrir, gjörningnum.

Þetta minnir óneitanlega á gamlar sálfræðirannsóknir Stanley Milgram. Það voru tilraunir á hlýðni og undirgefni manna þar sem þátttakendur voru settir í hlutverk kennara. Þeir kennarar áttu síðan að gefa nemendum (leikurum) straum ef þeir svöruðu spurningum kennarans með röngu svari. Straumurinn byrjaði í 30 V og fór mest í bannvæn 450 V, nema hvað að gervi nemendurnir fengu gervi straum, en það vissu kennararnir ekki því þeir léku það eftir með látum, öskrum og grátbáðu um að fá að hætta.

Spennugjafinn sem notaður var í tilrauninni. (C) Isabelle Adam
Spennugjafinn sem notaður var í tilrauninni. (C) Isabelle Adam

Tilraunamaður bað þátttakendur vinsamlegast um að halda tilrauninni áfram, gegn vilja sumra, því það væri nauðsynlegt fyrir tilraunina. Niðurstöður tilraunarinnar voru sláandi en 65% þátttakenda hlýddu fyrirmælum og gáfu nemendunum hæstan mögulegan straum, bannvæn 450 V. Rannsóknin hans er umdeild og ekki talin siðferðisleg en vissulega vekur hún upp margar spurningar.

Heimild: Eitt og Tvö