Tímamót hafa orðið í orkumálum manna samkvæmt nýrri skýrslu sem tilkynnt var á dögunum á nýorkuráðstefnu Bloomberg í New York. Heimurinn framleiðir nú meiri endurnýjanlega orku en kol, jarðgös og olíu samanlagt – og þá er ekki aftur snúið!

Endurnýjanlegar orkulindir eru þær sem haldast í jafnvægi af náttúrunnar hendi eins og sólar- og vindorkuauðlindir. Þáttaskilin urðu árið 2013 þegar framleiðslugeta á endurnýjanlegri orku jókst um 143 gígawött miðað við 141 gígawött af jarðefnaeldsneytum. Bilið mun halda áfram að stækka samkvæmt skýrslunni en árið 2030 verður framleiðslugeta á endurnýjanlegri orku rúmlega fjórfalt meiri en á jarðefnaorku.
Hér fyrir neðan sést graf úr skýrslunni sem sýnir minnkun á olíu, gasi og kolum á næstu 15 árum ásamt mikilli aukningu í sólar- og vindorku.

Sólarorka
Sólin okkar er eiginlega endalaus orkuauðlind og ef við gætum nýtt alla þá orku sem geislar hennar bera til jarðar gætum við svalað ársorkuþörf mannkynsins á einni klukkustund. Í sólarrafhlöðum er sólarljósinu umbreytt í rafmagn með hjálp hálfleiðara. Nýlega hefur vísindamönnum í Stanford tekist að auka skilvirkni silíkon sólarrafhlaðna um helming með einföldu lagi af perovskite kristöllum.

Þjóðverjar, Kínverjar, Ítalir og Japanir, og Bandaríkjamenn eru fremstir í þessum geira en Indverjar eru stórhuga og ætla sér að byggja áttfalt skilvirkari sólarorkustöð en sú besta í dag.
Vindorka
Vindurinn er einnig endalaus orkuauðlind en aðstæður þurfa að vera réttar. Hámarksafköst fást ekki nema við stöðugan byr sem ekki má vera of lítill né of mikill. Vindaflstöðvar eru taldar ódýr virkjunarkostur sem menga lítið.

Danmörk, Spánn, Portúgal, Svíþjóð og Þýskaland eru fremst í vindorku iðnaðinum miðað við höfðatölu en Kína framleiðir langmest af vindorku í heiminum eða um 75 þúsund megawött á ári.