Rúmlega 21 þúsund fermetra lóðrétt gróðurhús mun opna í Bandaríkjunum síðar í ár. Gróðurhúsið mun hafa 75 sinnum meiri afköst en hefðbundin gróðurstöð á jafn stórum fleti, og krefst mun minni orku í þokkabót.

Fyrirtækið AeroFarms, sem sérhæfir sig í að finna umhverfisvænar leiðir til matarræktunar, reisir nú 21.031 fermetra lóðrétt gróðurhús úr gamalli stálverksmiðju í Newark, New Jersey. Þessi nýja náttúruvæna aðferð á að skila þeim um milljón kílóum af óeitraðri matvöru árlega. Aðferðin er náttúruvæn á þann hátt að aðstaðan þarf enga mold, 95% minna vatn en hefðbundnar gróðurstöðvar, notar engin varnarefni (e. pesticides) og þar af leiðandi renna engin skaðleg efni í jarðveginn í kring.
Þeir notast einnig við endurunnin efni og ljóskerfið hjá þeim sparar mikla orku með nálægum LED ljósum og sérhönnuðum geislum fyrir ljóstillífun (e. photosynthesis) sem gerist aðallega í grænukornum í frumum laufblaða. Þar espast litarefni plöntunnar upp af ljósorku og gefa af sér rafeind sem setur flókið ljóstillífunarferlið af stað. Plöntur breyta þannig koltvíoxíði og vatni í sykrur og súrefni með ljóstillífun:
6H2O + 6CO2 + ljós → C6H12O6 (glúkósi) + 6O2
Gróðurhúsið mun einnig notast við sérstakt mistur af næringarefnum og súrefni fyrir plönturnar svo þær þjáist ekki fyrir það að vera inni. Mistrið inniheldur öll helstu næringarefnin sem plönturnar þurfa án þess að þurfa að sækja þær í mengaðan jarðveginn sem á að hraða hringrás uppskerunnar til muna en heildartími frá fræi til uppskeru verður um 16 dagar.

TED fyrirlestur um lóðrétt gróðurhús fyrir áhugasama
[…] Sjá einnig: Heimsins stærsta lóðrétta gróðurhús opnar í ár […]