Tölvuleikjaspilarar hafa betri tengsl og meira af gráu efni í heila

Tölvuleikjaspilun getur verið gífurlega krefjandi og örvandi fyrir heilabúið samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Það lítur út fyrir að allt þetta tölvuhangs hafi skilað einhverju eftir allt saman.

Margir leikir krefjast mikillar einbeitningar og athygli.
Margir leikir krefjast mikillar einbeitningar og athygli.

Vissulega getur tölvuleikjaspilun farið úr böndunum og verið allt annað en skynsamleg þegar menn hanga í holu dögunum saman og borða gervimat og meðí, eins og ritstjóri kannast við. En það eru vaxandi vísbendingar um það að tölvuleikjaspilun hafi góð áhrif á heilann og skerpi m.a. á vitsmunalegri og tilfinningalegri stjórnun (e. cognitive and emotional control), sjóninni (e. spatial resolution of vision), skerpunæmni (e. contrast sensitivity) og samhæfingu hreyfinga augna og handa.

Nýjar rannsóknir frá Ástralíu og Kína sýna að gráa efni heilans eykst við reglulega spilun. Heilagráni er á yfirborði hvelaheilans og í honum eru taugabolir með kjarna ásamt taugaþráðum og frumulíffærum taugunga. Hugsun og úrvinnsla heilans fer aðallega fram í gráa efninu en hvíta efnið leiðir boðin milli grárra svæða og samhæfir starfsemi þeirra. Líkja mætti gráa efninu við tölvu en hvíta efninu við leiðslurnar í henni, en regluleg spilun hvetur einnig til skilvirkari tengsla milli undirsvæða heilans.

Hér sést dreifing hvíta og gráa efnisins í þverskurði á heila.
Hér sést dreifing hvíta og gráa efnisins í þverskurði á heila.

Teymi vísindamanna frá raftækniháskólum í Kína og Ástralíu notuðu segulómun (e. functional magnetic resonance imaging) til að greina heila í 27 atvinnutölvuleikjaspilurum sem hafa unnið til verðlauna í leikjunum; League of Legends og DOTA2. Teymið bar síðan niðurstöður þeirra saman við niðurstöður fólks sem spilar ekki þessa tölvuleiki reglulega.

Einangrað svæði í heilaberki (e. insular cortex region) var skoðað sérstaklega. Það svæði tengist háþróuðum vitsmunalegum hæfileikum eins og tungumálahæfileikum, samkennd, og hæfni til að einbeita sér að sérstökum hlut eða verkefni. Niðurstöður sýndu aukningu í tengslum milli undirsvæða í heilaberkinum og aukningu á flatarmáli, þykkt og rúmmáli heilagrána.

Þetta þýðir ekki að tölvuleikjaspilun sé það besta fyrir heilabúið í öll mál en búist er við því að t.d. hjólatúr, boltaleikir, og akstur séu örvandi á svipaðan hátt. Það er samt sem áður gott að vita að tölvuleikjaspilun gerir þig ekki heimskan eða steikji í þér heilann eins og svo margir hræddir vilja halda. Gleðilega og áhyggjulausa spilun.