Geimfar Rússa hrapar nú stjórnlaust til jarðar eftir að hafa bilað á leið sinni með birgðir til alþjóðlegu geimstöðvarinnar (ISS). Sjö metra geimfarið snýst nú hrakandi á sporbraut um jörðu og á það að hrynja niður til jarðar eftir um viku.

Geimfarið Progress 59 átti að ferja tvö og hálft tonn af mat, vatni, eldsneyti og öðrum birgðum til vísindamanna í alþjóðlegu geimstöðinni sem vinna þar að allskyns rannsóknum í eðlisfræði, líffræði, efnafræði, læknisfræði, sálfræði og fleira. Eitthvað hefur farið úrskeiðis þegar geimfarið tók að snúast stjórnlaust rétt eftir að hafa náð upp á sporbraut um jörðu og ná höfuðstöðvar Rússa ekki sambandi við geimfarið.
Geimfarið er nú í rúmlega 250 km hæð og ferðast það um 26 þúsund km á klukkustund. Rússar halda áfram að reyna að ná sambandi við geimfarið, á þeim 90 mínútum sem geimfarið flýgur yfir þá í hvert skipti, og koma því á sporbraut en ef það næst ekki á næstu dögum vilja þeir reyna að stýra farinu niður í átt að Kyrrahafi frekar en að landi af augljósum ástæðum. Geimfararnir í alþjóðlegu geimstöðinni eiga sem betur fer nóg af birgðum til að komast af þar til næsta sending kemur.