Google býr til risastórt safn staðreynda

Google vinnur nú að því að framleiða stærsta safn staðreynda og þekkingar í sögu mannkyns og það án máttugs heila mannsins. Google’s Knowledge Vault er stórbrotið safn staðreynda sem safnað er saman af reikniriti (e. algorithm) sem surfar netið sjálfkrafa og finnur alls konar nothæfar upplýsingar. Upplýsingar um allt verða brátt aðgengilegar alls staðar!

Staðreyndasafn Google
Staðreyndasafn Google

Upphaflega reyndu þau hjá Google að safna saman upplýsingum saman á einn stað með fjölmenni (e. crowdsourcing) en síðar áttuðu þau sig á því að tölvur gætu gert það sama með miklu meiri afköstum. Safnið telur nú yfir 1,6 milljarð staðreynda. Þessi gagnagrunnur verður síðar notaður fyrir leitarvélar framtíðarinnar en Microsoft, Facebook, Amazon og IBM eru öll að reyna að byggja svipaðan gagnagrunn. Þetta verður einnig til þess að snjallsímar og vélmenni framtíðarinnar verða snjallari og Siri verður t.d. mun betri í að túlka hvað þú meinar þegar þú spyrð hana alls konar spurninga.

Siri, hver er tilgangur lífsins?
Siri, hver er tilgangur lífsins?

Reikniritið er ófyrirsjáanlegt og mun sanka að sér upplýsingum jafnt um staði, fólk, sögu, vísindi og menningu. Þetta hefur valdið sumum áhyggjum vegna þess að forritið hefur aðgang að leynilegum upplýsingum á heimasíðum eins og Amazon, Youtube og Google+. Í framtíðinni munu raunverulegir aðstoðarmenn hjálpa reikniritinu að finna út hvaða upplýsingar eru þýðingarmiklar fyrir okkur og hverjar ekki. Tölvurnar munu því verða betri að finna út þær upplýsingar sem við viljum finna og mæta þörfum okkar.

Reikniritið getur einnig fundið fylgni milli alls kyns upplýsinga sem maðurinn myndi eflaust ekki finna fljótlega með því að fara í gegnum stóran gagnagrunn. Þetta gæti þýtt stórbrotnar læknisfræðilegar framfarir til dæmis eða góðar spár fyrir framtíðina. Um leið og þekkingarsafnið mun geta túlkað raunverulega hluti með sjón, verður hægt að labba um Jörðina með snjallsímann sinn, beina honum að hlut, spurja spurningu um hlutinn og fá gott og gáfað svar. Upplýsingar um allt verða því aðgengilegar alltaf, alls staðar.