Bein tenging finnst milli heila og ónæmiskerfis

Þvert á við kenningar læknisfræðarinnar síðustu áratugi hefur nú fundist bein tenging milli heila og ónæmiskerfisins. Þetta gætu verið stórar fréttir fyrir sjúkdóma eins og MS (Multiple Sclerosis) og Alzheimer.

Eitlakerfi, gamalt til vinstri og uppfært til hægri.
Eitlakerfi, gamalt til vinstri og uppfært til hægri.

Það virðist nær ótrúlegt að heilt sogæðakerfi (e. lymphatic vessels) hafi reynst óuppgötvað eftir margar aldir af krufningum og alls konar rannsóknum. En það er einmitt það sem gerðist að sögn Jonathan Kipnis, prófessor við Virginíu háskólann í Bandaríkjunum. Hann segir þetta gjörbylta skynjun þeirra á tengslum milli ónæmis- og taugakerfisins en áður trúði hann því að þetta væru dulspekileg tengsl sem ómögulegt væri að rannsaka.

lymphatic-system
Eitlakerfið

MS-sjúkdómurinn er langvinnur bólgusjúkdómur, sem einkennist af endurtekinni bólgu í miðtaugakerfinu. Orsökin er óþekkt, en bólgan er talin vera vegna truflunar í ónæmiskerfinu.  MS er talið vera dæmi um að ónæmiskerfið ráðist á heilann en ástæður eru óljósar. Nú verður verðugt að rannsaka þessar sogæðar og sjá hvernig þessar árásir fara fram og hvernig væri hægt að stöðva þær. Orsakir Alzeimer eru umdeildar og óljósar en þær gætu einnig átt uppruna sinn í ónæmiskerfinu, og að uppsöfnun próteina í heilanum sé vegna veikra sogæða.

Þessi stóra uppgötvun kom óvænt eins og svo margar aðrar uppgötvanir en Dr Antoine Louveau, rannsakandi í rannsóknarstofu Kipnis, var að skoða heilahimnu úr mús í smásjá. Í afholi (e. sinus) rennur blóð frá heila og niður en þar sá hann línuleg mynstur af T-frumum ónæmiskerfisins. Hann hringdi efins í Kipnis og sagðist halda að hann væri með eitthvað sérstakt þarna.  Kipnis var einnig efins og sagðist halda að þessar uppgötvanir hefðu klárast um miðja síðustu öld.

Hæfustu taugasérfræðingar við Virginíu háskólann staðfestu að þetta væru alvöru sogæðar sem bera hvítar blóðfrumur og að þær séu einnig í mönnum. Þetta litla net sogæða byrjar hjá augunum, fer að nefinu og niður meðfram afholi. Kipnis þakkar Dr. Tajie Harris fyrir að gera þeim kleift að mynda þessar æðar í lifandi verum sem staðfesti þeirra tilgátur, og tileinkar fundinum aðferðinni sem þeir notuðu við að festa heilahimnuna við hauskúpuna áður en þeir háfu krufningu en ekki öfugt.