Heimsins fyrsta neðanjarðar gróðurstöð í þéttbýli hefur nú hafið viðskipti í London. Stöðin endurnýtir gömul sprengjuskjól borgarinnar frá síðari heimsstyrjöldinni til vistvænnar og sjálfbærrar ræktunar á nytjajurtum.

Verkefnið er afurð 18 mánaða rannsóknarvinnu og undirbúningi með það helst í huga að framleiða sem mest fyrir sem minnst af orku. Rýmið, sem áður veitti 8.000 Lundúnarbúum sprengjuskjól í 30 metra dýpi, kallast nú Neðanjarðarræktun (e. Growing Underground), og notast þau við jarðvegslausa ræktun (e. hydroponics) og LED ljós til að framleiða úrval af grænmeti og jurtum sem inniheldur sellerí, klettasalat, steinselju, radísu og sinnepskál – og það án eiturefna.

Rekstraraðilar ætla að jarðvegslausa aðferðin ásamt sérstöku áveitukerfi muni spara þeim um 70% af því vatni sem hefðbundnar gróðurstöðvar á bersvæði nota. Einn stærsti kostur stöðvarinnar er staðsetningin en einangrunin heldur hitastiginu stöðugu í 16° C og því verður hægt að framleiða og uppskera allan ársins hring.