Geimfar NASA skoðar Plútó í nærmynd í fyrsta sinn

Á hádegi í dag flaug New Horizons geimfar NASA framhjá dvergreikistjörnunni Plútó á um 50.000 kílómetra á klukkustund (13,8 km/s) eftir 4,7 milljarða kílómetra ferðalag sem tók rúmlega 9 ár. Helstu markmið verkefnisins eru að kortleggja jarðfræði Plútós og tunglsins Karons, varpa ljósi á efnasamsetningu þeirra og kanna örþunnan lofthjúp Plútós.

Nýjasta heilmynd af Plútó, tekin úr 766.000 km fjarlægð.
Nýjasta heilmynd af Plútó barst okkur í nótt, tekin úr 766.000 km fjarlægð.

Um 9 klst eftir heimsóknina tekur geimfarið sér hlé á mælingum til að senda gögn til Jarðar. Vegna óralangrar fjarlægðar tekur það gögnin tæplega 4 og hálfa klukkustund að berast heim, með gagnaflutning upp á 1 kb/s. Búist er við að fyrstu myndir verði komnar til Jarðar um kl 01:00 aðfaranótt miðvikudagsins 15. júlí. Að því loknu munu rannsóknir halda áfram næstu tvo mánuði.

Í september mun geimfarið hefja flutning á öllum gögnum til Jarðar og mun það taka um eitt og hálft ár svo það borgar sig að vera þolinmóð/ur. Geimfarið mun þó senda 1% af helstu gögnum sínum heim til 20. júlí, þ.á.m. fjórtán LORRI nærmyndir og tvær Ralph myndir af Plútó og tunglunum Karon, Nix og Hýdru. Geimflaugin skartar rosalegum vísindatækjum m.a. fyrir sýnilegt, innrautt og útfjólublátt ljós.

Að þessu verkefni loknu mun geimfarið ræsa eldflaugina sína og koma sér á braut til nýfundins íshnattar í Kuipersbeltinu sem við munum líklega sjá í kringum áramótin 2018-2019.

Mynd frá Hubble sjónaukanum árið 2005 sýndi tvö ný tungl. Í miðjunni er Plútó, fyrir neðan er Karon, stærsta tungl plánetunnar og til hliðar eru nýfundnu tunglin Nix og Hýdra.
Mynd frá Hubble sjónaukanum árið 2005 sýndi tvö ný tungl. Í miðjunni er Plútó, fyrir neðan er Karon, stærsta tungl plánetunnar og til hliðar eru nýfundnu tunglin Nix og Hýdra.

Af hverju er Plútó ekki lengur talin reikistjarna?

Árið 2006 var reikistjarnan Plútó lækkuð um tign af Alþjóðasambandi stjörnufræðinga og sett í flokk dvergreikistjarna aðallega vegna þess að plánetan hefur ekki nægilega mikið þyngdarafl til að hreinsa sporbraut sína af geimgrjótum. Reikistjörnufræðingar vilja heldur skilgreina reikistjörnu sem hlut á sporbraut um spólina sem hefur nægilega mikið þyngdarafl til að vera því sem næst hnattlaga. Skilgreining sem Plútó smellpassar í.

„Ákvörðunin hefði átt að vera reikistjörnufræðingana,“ að sögn Alan Stern, forstjóra New Horizons verkefnisins. „Ef þú þyrftir að fara í heilaaðgerð þá myndirðu ekki hringja í fótsnyrti. Þú ferð ekki til skattalögmanns til að fylla út skilnaðarpappíra… Reikistjörnur eru allt annað fyrirbæri en vetrarbrautir.“

Reikistjörnur og dvergreikistjörnur sólkerfisins. Mynd frá Stjörnufræðivefnum.
Reikistjörnur og dvergreikistjörnur sólkerfisins. Mynd frá Stjörnufræðivefnum.

Aska uppgötvara Plútó fór með

Það var 19 ára sveitastrákur frá Kansas að nafni Clyde Tombaugh sem uppgötvaði Plútó þann 19. febrúar, 1930. Tombaugh vann við að skoða myndir af himninum hjá Lowell Observatory í Arizona en það var einmitt yfirmaður hans Percival Lowell sem hafði spáð fyrir um tilvist Plútó 15 árum áður. Birtan frá Plútó jafngildir því að reyna að sjá kertaljós í um 700 km fjarlægð, auk þess að það eru milljarðir stjarna á himni sem skína skærar en hún. Hluti af ösku Clyde Tombaugh ferðaðist með geimfarinu til Plútó, sem hugsanlega hefur verið hans hinsta ósk.

pluto_farmboy
Clyde Tombaugh uppgötvari Plútó við stæðilegan stjörnusjónauka.

Heimildir: Stjörnufræðivefurinn, Vísindavefurinn, Popular Science: Eitt, Tvö og Þrjú.

One comment

Lokað er á athugasemdir.