Stærsta og viðamesta leit að geimverum frá upphafi þökk sé rússnenskum milljarðamæringi

Rússnenski milljarðamæringurinn Yuri Milner og stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking hafa tilkynnt um 100 milljón dollara fjárfestingu fyrir leit að vitsmunalífi í geimnum.

Útvarpssjónaukar hlusta á alheiminn.
Útvarpssjónaukar hlusta á alheiminn.

„Við trúum því að líf hafi sprottið upp sjálfkrafa hér á jörð,“ sagði Hawking á ráðstefnu SETI (Search for Extraterrestrial Intelligence) í London nú á dögunum. „Svo að í óendanlegri veröld hljóta að vera önnur tilvik um líf.“

SETI var stofnað árið 1960 af stjörnufræðingnum Frank Drake, höfundi Drake jöfnunnar (sjá neðst), en hann segir fjárfestinguna koma á besta tíma. Hann sagði stofnunina frá upphafi vera umdeilda og gerða að athlægi af stjórnmálamönnum sem vildu nota almannafé í annað þar til að hún missti alla fjármögnun og er nú einkarekin.

Bylting í stjörnuvísindum

„Við náum vanalega að nota stjörnusjónauka í 24-36 klst á ári en nú höfum við þúsundir klukkustunda með bestu mögulegu tækjum,“ sagði Andrew Siemion, einn stofnanda SETI, á blaðamannafundi. „Það er erfitt að ýkja hversu stórt þetta er. Þetta er bylting.“

Með nýrri fjárfestingu munu þau safna jafn miklum gögnum á einum degi eins og þau hafa gert undanfarið ár. Í verkefninu, sem Milner kallar Byltingarhlustun (e. Breakthrough Listen), mun rannsóknarteymið hlusta á þúsund nálægustu stjörnur jarðar og reyna að finna veik merki útvarpsbylgja sem gæfu til kynna siðmenningu sem væri lík okkar en líklega aðeins framar í tækni.

Kepler sjónauki NASA, ásamt öðrum mögnuðum tækjum, hefur sýnt fram á milljarði möguleika um lífvænlegar plánetur og það bara í okkar sólkerfi. Teymið tekur fram að þau hafi aðeins hlustað á nokkur þúsund stjörnur og aðeins á gríðarsmáu tíðnisviði af þeim milljörðum mögulegu útvarpsrásum sem til eru. Hawking segir tímabært að skuldbinda okkur við að finna svar við þeirri risastóru spurningu um hvort við séum ein í alheiminum.

Sjá líka: Fermi þversögnin útskýrð – hvar eru allar geimverurnar?

Í hvað mun peningurinn fara?

Samkvæmt Dr. Werthimer mun þriðjungur af þessum 13,5 milljörðum króna fara í það að framleiða betri móttökubúnað. Annar þriðjungur fer í að ráða færa stúdenta og aðra stjörnufræðinga. Restin mun fara í að tryggja nægan tíma við tvo stærstu útvarpssjónauka í heimi: Robert C. Byrd Green Bank Sjónaukann Í Vestur-Virginíu og Csiro Parkes Sjónaukann í Nýja Suður-Wales, Ástralíu.

Yuri Milner og Stephen Hawking.
Yuri Milner og Stephen Hawking.

Allur peningurinn kemur beint úr vasa Yuri Milner

„Ég hef verið að hugsa um þessi vísindi síðan ég var barn, lesandi bókina Vitsmunalíf í Alheiminum (e. Intelligent Life in the Universe) eftir Carl Sagan,“ sagði Milner í viðtali. „Árið sem ég fæddist, 1961, var stórt ár fyrir vísindi – fyrsta manni var skotið upp í geim og ég var skírður í höfuðið á honum. Kennedy flutti einnig fræga ræðu um að setja mann á tunglið.“

Milner segist ekki hafa miklar væntingar um að finna eitthvað áþreifanlegt en er viss um að leitin verði ómetanleg fyrir vísindi. Hvort það verði geimverur eða ekki megum við eiga von á stórum uppgötvunum.

Ef við skyldum finna vitsmunalíf hefur Milner einnig sett á laggirnar keppni um að hanna skilaboð sem við gætum sent til þeirra. Sigurvegari hlýtur eina milljón bandaríkjadala eða um 135 milljónir íslenskra króna.

Drake jafnan áætlar gróflega hversu mörg menningarsamfélög í Vetrarbrautinni okkar gætu haft samband við okkur

N = R* x fp x ne x fl x fi x fc x L

Þar sem:

  • N = fjöldi tæknivæddra menningarsamfélaga sem gætu haft samband við okkur
  • R* = fjöldi stjarna á borð við sólina sem myndast í Vetrarbrautinni á ári hverju
  • fp = hlutfall stjarna á borð við sólina sem hafa sólkerfi
  • ne = fjöldi lífvænlegra reikistjarna í sólkerfinu
  • fl = hlutfall lífvænlegra reikistjarna þar sem líf verður til
  • fi = hlutfall reikistjarna með lífi þar sem vitsmunalíf þróast
  • fc = hlutfall reikistjarna með vitsmunalífi þar sem tæknivædd menningarsamfélög þróast og vilja hafa samband
  • L = dæmigerð meðalævi slíks tæknivædds samfélags

Heimildir:
ScienceAlert
NYTimes
Vísindavefurinn: Hvað er útvarpssjónauki og hvernig er hann notaður?
Stjörnufræðivefurinn: SETI-tilraunin, Drake Jafnan

One comment

Lokað er á athugasemdir.