Umhverfisvænni jarðarfarir með sveppabúningum eða fræbelgjum

Líkamar okkar eru síur fyrir hundruði eiturefna sem losna í jörðina er við deyjum. Aðferðir við varðveislu líkama geta einnig verið skaðlegar umhverfi okkar ásamt mikilli sóun á efnivið líkkista sem notaðar eru í nokkra daga. Hér koma tvö frumleg svör við þessu vandamáli, annars vegar sveppabúningur sem endurvinnur þig fyrir jörðina og hins vegar fræbelgur sem breytir þér í tré að eigin vali.

Nýjar og frumlegar hugmyndir gegn skaðlegum áhrifum jarðarfara á umhverfið.
Nýjar og frumlegar hugmyndir gegn skaðlegum áhrifum jarðarfara á umhverfið, Infinity burial og Capsula Mundi.

Samkvæmt sjúkdómseftirlitsmiðstöð Bandaríkjanna (Center for Disease Control, CDC) eru um 219 eiturefni í líkamanum, þ.á.m. rotvarnarefni, skordýraeitur, þungamálmar eins og blý, og kvikasilfur úr tannfyllingum. Einnig eru varasamar aðferðir notaðar við varðveislu líkama, sem t.d. þarf að flytja langar vegalengdir, í mörgum löndum en það hefur farið skánandi með tímanum.

Lík eru yfirleitt smurð og fyllt af allskonar rotverndandi efnum eins og formaldehýði, fenóli, metanóli og glýseríni til að sporna við rotnun svo að þau geti verið líflegri í athöfnum eins og kistulagningu og jarðarförum. Á Íslandi eru lík ekki smurð heldur geymd í 6-8°C til að sporna við rotnun. Formaldehýð er líklegur krabbameinsvaldur og er okkur bannvænt í miklu magni. Gufur þess erta augu, nef og háls og eiga til að valda starfsmönnum iðnaðarins heilsutjóni.

Talið er að um 3 milljónir lítra af formaldehýði séu jarðsettir ásamt líkum árlega í Bandaríkjunum. Á sama tíma má tala um sóun á efnivið líkkista sem fer ofan í jörð eins og rusl en á einu ári mætti byggja mörg þúsund heimili fyrir sama efnivið í Bandaríkjunum. Samtals eru það rúmlega 70 þúsund rúmmetrar af harðvið, 2.700 tonn af kopar og bronsi, 104.272 tonn af stáli og um 1.636.000 tonn af steypu.

Er líkbrennsla eitthvað skárri?

Brennsla er ekki endilega hollari kostur því hún losar allskonar hættuleg efni í andrúmsloftið eins og kolsýring, nituroxíð, sót, brennisteinstvíoxíð, þungamálma og kvikasilfur tannfyllinga sem er sérstaklega varhugavert. Leifar líkama þíns verða svo að ösku sem skilar engum næringarefnum aftur til jarðarinnar.

Umhverfisvænni kostir

Það eru til lífbrjótanlegir kostir fyrir líkkistur eins og t.d. bambus, pappi, ull og víðir en samkvæmt vísindavefnum er ekkert skýrt ákvæði um að skylt sé að nota líkkistur við greftranir þó það sé vaninn í öllum trú- og lífsskoðunarfélögum. Í reglugerðinni er samt eins og það sé sjálfsagður hlutur að grafa fólk í kistum þegar, til dæmis, sagt er til um hversu djúpt skuli niður á kistulok. En hvað annað er í boði?

Sveppabúningur dauðans

Listamaðurinn Jae Rhim Lee, frá Suður-Kóreu, hefur unnið að því með The Infinity Burial verkefninu að fá fólk til að sætta sig við dauðann og taka ábyrgð á sinni eigin byrði á jörðina og umhverfið. Hún segir okkur bæði ábyrg og fórnarlömb eigin mengunar.

Hún leitaði til sveppa sem eru meistarar niðurbrots og endurvinnslu lífrænna efna í náttúrunni. Hugmyndin hennar var að þjálfa her af sveppum sem myndu brjóta okkur niður, endurvinna eiturefni sem í okkur eru og flytja næringarefnin til róta plantna. Til þess hefur hún hannað búning með þráðum af sveppagróum af sérvöldum tegundum af sveppum.

The Infinity Burial búningurinn
The Infinity Burial búningurinn

Hún hefur safnað af sér hári, húð og nöglum og rannsakað hvaða tegundir sveppa hafa bestu lyst á sér ásamt því að gera tilraunir á útrunnu kjöti og þeim sem gáfu líkið af sér til góðgerðamála eftir andlát.

Gallinn kemur á markað nú í apríl og mun kosta $999 sem er um tíu prósent af því sem venjuleg jarðarför kostar fólk að meðaltali í Bandaríkjunum. Fólk hættir nefnilega ekkert að reyna að græða á þér þó þú sért dauð/ur.

Vistvænir fræbelgir sem breyta þér í tré

Hönnuðurnir Anna Citelli og Raoul Bretzel frá Ítalíu vilja breyta líkama þínum í tré eftir andlát. Verkefnið kallast Capsula Mundi og helsta markmið þeirra er að hjálpa fólki að skilja hvernig nútíma menning tekst við dauðann á ósjálfbæran hátt.

Líkami hins látna yrði lagður í fósturstellingu í egglaga belg úr korn- og kartöflusterkju og tré að eigin vali yrði síðan gróðursett yfir belgnum. Með tímanum myndi svo blanda af næringarefnum og örverum frá líkinu næra tréið.

Capsula Mundi er hönnun Anna Citelli og Raoul Bretzel.
Capsula Mundi er hönnun Anna Citelli og Raoul Bretzel.

Hugmyndin er táknræn að því leyti annars vegar að þau vilja halda hringrás lífs gangandi og gróðursetja ný tré í stað þess að höggva niður tré fyrir líkkistur og hins vegar að líkamar eru settir niður í egglaga belg sem er táknrænn fyrir nýtt líf. Ýmsar hindranir eru þó fyrir þessari hugmynd en til dæmis í heimalandinu þeirra, Ítalíu, er bannað með lögum að jarðsetja í öðru en kistu úr við og tini en þau vinna nú að því að fá þessum lögum breytt.

Anna og Raoul hvetja þig til að ímynda þér kirkjugarð fullan af allskonar trjám og lífi í stað einsleitra steina. Sú hugmynd er ekki alveg ný en til dæmis eru Woodland Burials, Bretlandi, kirkjugarðar þar sem náttúran er í hávegum höfð.

Westall Park Natural Burial Ground, Bretlandi.
Westall Park Natural Burial Ground, Bretlandi.

Qeepr birti þetta lýsiskjal með upplýsingum um skaðleg áhrif jarðarfara á umhverfið

The Environmental Impact of Funerals

Heimildir

The Infinity Burial
Capsula Mundi
Woodland Burials
ScienceAlert:
This mushroom suit digests your body after you die
Two designers want to turn your body into a tree with these eco burial pods
TechInsider:
Burying dead bodies takes a surprising toll on the environment