Stöndum saman um hálendisþjóðgarð á Íslandi

Gærdagurinn, 7. mars, var stór dagur í sögu náttúruverndar á Íslandi þegar fulltrúar yfir 20 umhverfis- og ferðamálasamtaka skrifuðu undir viljayfirlýsingar um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Ert þú búin/n að skrifa undir?

Hálendi Íslands er einstaklega fallegt svæði á heimsvísu. Mynd eftir Anna Andersen.
Hálendi Íslands er einstaklega fallegt svæði á heimsvísu. Mynd eftir Anna Andersen.

Miðhálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins. Það þekur um 40.000 ferkílómetra og er eitt stærsta óbyggða svæði Evrópu. Svæðið er einstaklega fallegt á heimsvísu en það geymir eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun, svartar sandauðnir og viðkvæmar gróðurvinjar.

Skrifaðu undir hér

Veröldin hvetur þig til að skrifa undir viljayfirlýsingu náttúruverndarsamtaka, útivistarsamtaka og Samtaka ferðaþjónustunnar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Hvað felst í þjóðgarði?

Þjóðgarður myndi tryggja vernd þessa svæðis og um leið gæti hann skapað mörg tækifæri til náttúrufræðslu, útivistar og atvinnusköpunnar í landinu. Markmiðið er að það skili sér í efnahagslegum ávinningi með því að styðja við ferðaþjónustu í samfélaginu. Dæmi um alla veröld hafa sýnt að fjárfesting í þjóðgörðum skilar margföldum tekjum tilbaka til samfélagsins.

„Þessi samstöðuyfirlýsing er stór áfangi á þeirri leið að vernda eitt okkar allra dýrasta djásn, hálendið, í einum stórum þjóðgarði. Það yrði mikið heillaskref fyrir þjóðina því hálendið er í alla staði verðmætara villt en virkjað,”

segir Snorri Baldursson formaður Landverndar. Markmiðið verður að skapa umgjörð fyrir náttúrufræðslu, ferðalög og útilegu og á það jafnt við um gönguferðir, jeppaferðir og ferðamennsku á öðrum ökutækjum. Allt er þetta stór partur af því að njóta náttúrunnar í þjóðgörðum um allan heim.

„Upplifun á hálendinu og óbyggðum Íslands er einstök. Því er mikilvægt að þjóðin taki ákvörðun til lengri tíma um verndun hálendisins, samhliða því sem öllum verði tryggður réttur til útvistar og frjálsrar farar um landið,”

segir Skúli H. Skúlason, framvkæmdastjóri Ferðafélagsins Útivistar. Hægt er að leggja áherslu á að hefðbundnar sjálfbærar veiðar séu stundaðar og þannig geta ábyrgar veiðar aukið áhuga á því að vernda svæði og þær dýrategundir sem þar er að finna. Við skipulag þjóðgarðsins yrðu verndarflokkar Alþjóðanáttúruverndarsambandsins hafðir að leiðarljósi.

Viljayfirlýsing um stofnun þjóðgarðs,
tekið af nýrri heimasíðu verkefnisins Hálendið:

„Samtökin sem standa að þessari yfirlýsingu vilja ná sem víðtækastri samstöðu um verndun miðhálendis Íslands með stofnun þjóðgarðs í eigu íslensku þjóðarinnar allrar. Við teljum að hálendisþjóðgarður yrði stærsta framlag okkar tíma til náttúruverndar á Íslandi. Hann myndi styrkja ímynd Íslands sem lands náttúruverndar og yrði til hags fyrir fólkið í landinu og þá sem sækja Ísland heim. Þjóðgarðurinn yrði griðastaður fyrir þá sem vilja njóta náttúru miðhálendisins og nýta hana til útivistar og náttúruupplifunar.“

Fylgstu með verkefninu á facebook

Heimildir

Hálendið – Iceland National Park
Landvernd: Tímamóta samstaða um þjóðgarð á miðhálendinu