Yuri Milner splæsir $100 milljónum í að senda geimflaugar til nágrannastjörnu okkar Alpha Centauri

Milljarðamæringurinn Yuri Milner tilkynnti í dag ásamt Stephen Hawking og fleiri vísindamönnum um 100 milljón dollara fjárfestingu fyrir rannsóknir og framleiðslu á frumgerð geimflaugar sem ferðast á til nálægustu stjörnu við sólina á aðeins 20 árum.

Nágrannastjarna okkar bjarta, Alpha Centauri.
Nágrannastjarna okkar bjarta, Alpha Centauri.

Yuri Milner og Stephen Hawking tilkynntu í dag ásamt nokkrum af heimsins færustu vísindamönnum áform um að senda geimflaugar til nágrannastjarna okkar í Alpa Centauri. Flaugarnar munu taka myndir og safna gögnum um aðstæður reikistjarna og halda því áfram leitinni að vitsmunalífi í geimnum.

Sjá eldri frétt Veraldarinnar um upphaf samstarfs Yuri Milner og Stephen Hawking: Stærsta og viðamesta leit að geimverum frá upphafi

Hvað er Alpha Centauri?

Alpha Centauri er ein bjartasta stjarnan á himninum og er hluti af stjörnumerkinu Mannfák (kentár). Alpha Centauri er nálægasta stjörnukerfi við sólkerfi okkar eða um 4,3 ljósár í burtu. Alpha Centauri samanstendur af þremur stjörnum – Alpha Centauri A og B sem snúast hver um aðra og virðast ein og sama stjarnan með berum augum, ásamt fjarlægari og daufari rauðri dvergstjörnu sem kallast Proxima Centauri.

Meðalfjarlægð milli Alpha Centauri A og B eru 11 stjarnfræðieiningar (SE), svipað og fjarlægð milli sólarinnar og Úranus. Alpha Centauri A er meginraðarstjarna af gerðinni G2 eins og sólin okkar, en er 10% massameiri, 23% stærri og 52% bjartari en sólin. Alpha Centauri B er meginraðarstjarna af gerðinni K1 og hefur 90% af massa sólarinnar okkar, 87% af breidd og 44,5% af lýsingu hennar.

Þriðja stjarna stjörnukerfisins, Proxima Centauri, er fjarlægari og daufari rauð dvergstjarna. Hún er nálægasta stjarna sólarinnar í 4,22 ljósára fjarlægð en þrátt fyrir það sést hún ekki á himni með berum augum.

Stærðir nágrannastjarnanna settar í samhengi.
Stærðir nágrannastjarnanna settar í samhengi.

Geimskip út fyrir örflaugar

Þetta verða engin venjuleg geimskip heldur mun ein geimflaug komast fyrir í lófa okkar og mun vega aðeins um 200-300 milligrömm. Planið er að senda þúsundir slíkra flauga með hjálp leysigeisla til stjörnukerfisins Alpha Centauri þar sem þær geta tekið og sent myndir og gögn tilbaka af öllum reikistjörnum stjörnukerfisins. Gögnin munu flaugarnar senda tilbaka með leysigeisla.

„Við höfum gert nýlegar rannsóknir með nokkrum af bestu vísindamönnum á mismunandi sviðum, og það kom mér á óvart að við getum framkvæmt þetta innan við einnar kynslóðar,“ að sögn Yuri Milner.

Geimflaugarnar verða um 10 centimetra langar kísilþynnur ásamt um meter löngu ljóssegli úr endurspeglandi efni sem fangar skriðþunga ljóseinda leysigeislanna og knýjast þannig áfram. 100 gígawatta fylking leysitækja munu sjá til þess að koma geimflaugunum á um 20% af ljóshraða, sem kæmi geimflaugunum þessa 4 ljósára fjarlægð á um 20 árum.

Verkefnið ekki laust við vandamál

Milner segir að þetta verði langt frá því að vera auðvelt en að þetta sé tæknilega mögulegt. Tæknin er ekki til í dag en Milner er viss um að lið hans geti þróað hana.

„Við erum að fjárfesta í einhverju sem er mögulegt innan nokkurra ára, og við munum takast á við þetta skref fyrir skref. Að fljúga til annarra stjarna er dramatískt mun erfiðara en að fljúga innan sólkerfisins okkar.“

Teymið mun takast á við áskoranir eins og að koma kostnaði geimflauganna niður á borð við snjallsíma svo þau geti sent hundruði eða þúsund slíkar flaugar með mismunandi eiginleika. Til að byrja með vilja þau á næstu árum senda nokkrar geimflaugar til að taka myndir af tunglinu. Einnig þarf að hanna mun stærra leysitæki heldur en er til í dag til að framleiða drifkraft sem knýr áfram geimflaugarnar.

Milner ásamt Hawking og restinni af teymi sínu við tilkynninguna í dag.
Milner ásamt Hawking og restinni af teymi sínu við tilkynninguna í dag.

Þessi fjárfesting er aðeins byrjunin

Jafnvel þó að við getum sigrast á öllum þessum tæknilegu áskorunum þá verður þessi fjárfesting Milner’s aðeins nóg fyrir þær rannsóknir en ekki allt verkefnið.

Milner segir verkefnið verða áratugalangt sem mun kosta marga milljarða dollara og verða í líkingu við stærstu vísindaverkefni heims eins og James Webb geimsjónaukann og sterkeindahraðalinn í CERN.

Óvíst er hver mun fjármagna slíkt verkefni en Yuri segir líklegt að hann muni sannfæra vini sína um að taka þátt ásamt möguleikanum á samstarfi við NASA ef þau hafa áhuga.

Milner útskýrir ferlið á blaðamannafundinum í dag

Heimildir

New Scientist.com, Billionaire pledges $100m to send spaceships to Alpha Centauri
Space.com, Alpha Centauri: Nearest Star System to the Sun
Stjörnufræðivefurinn, Mannfákurinn