Sjáðu inn í heimsendahvelfinguna á Svalbarða

Lengst inni í fjalli nálægt Norðurpólnum er að margra mati mikilvægasti kælir mannkyns. Kælir sem varðveitir fræsýni af öllum helstu nytjaplöntum jarðar sem tryggingu fyrir mögulegum náttúruhamförum og styrjöldum framtíðarinnar.

Inngangur frægeymslunnar á Svalbarða.
Inngangur frægeymslunnar á Svalbarða.

Á Svalbarða, eyjaklasa í Norður-Íshafi í eigu Noregs, eru um milljón fræsýni af helstu nytjaplöntum jarðar varðveitt í sífreri og eru hugsuð sem trygging fyrir allar helstu plöntur ef eitthvað skyldi koma fyrir í framtíðinni. Svalbarði er nyrsta svæði í heimi þar sem er föst búseta tæplega 3.000 manna.

Frægeymslan var byggð árið 2008 og kostaði hún þá um 9 milljónir dollara. Geymslan er byggð til að endast í minnst 200 ár og á hún að standast jarðskjálfta, kjarnorkusprengingar, eldgos og einnig mun hún vera yfir sjávarmáli ef allir jöklar jarðar skyldu bráðna.

Inni eru þrjár hvelfingar þó aðeins ein sé í notkun eins og er. Geymslan öll hefur getu til að geyma um 4,5 milljónir fræsýna. Í hverju sýni eru um 500 fræ að meðaltali svo frægeymslan er fær um að geyma um 2,25 milljarð fræja.

Hvelfingarnar eru á 120m dýpi inni í fjalli.
Hvelfingarnar eru á 120m dýpi inni í fjalli.

Fræin eru geymd í þéttum pokum sem geymdir eru í lokuðum kössum í hillum. Sérstakt kerfi heldur hitastiginu inni í hvelfingunni í um -18° C og rakastigi lágu til að tryggja lágmarks efnaskipti. Þannig eiga fræin að haldast lífvæn í áratugi eða aldir, jafnvel árþúsundir. Hitastigið inni í fjallinu helst stöðugt í um -5° C svo að fræin yrðu í góðum málum í langan tíma þrátt fyrir að rafmagn færi af.

Nær allar þjóðir heimsins eiga innistæðu í frægeymslunni þ.á.m. Norður-Kórea. Kassarnir eru lokaðir af eigendum og enginn hefur aðgang að innihaldi kassans nema eigandinn sjálfur. Á internetinu, heimasíðu frægeymslunnar, er þó hægt að skoða gagnagrunn af öllum plöntutegundum sem geymdar eru þar, í hvaða magni, frá hvaða landi og fleira.

Íslendingar eiga þarna 477 skráningar þar sem finnst m.a. bygg, blóðberg, repja, skarfakál, ætihvönn, kúmen, rauðvingull og margt fleira.

Fyrsta úttekt á fræjum frá upphafi var í fyrra af Sýrlendingum eftir að frægeymsla þeirra var eyðilögð af loftárásum. Þeirra fræ hafa nú verið send til Marokkó og Líbanon þar sem þau verða gróðursett og einnig notuð í rannsóknir um hvernig skal rækta gróður á eins þurru landi og þar er. Sýrlendingar munu síðar senda heilbrigð fræ aftur til baka þegar þau fá heilbrigða uppskeru.

Norðmenn taka fram að þarna eru engin fræ geymd fyrir ólöglegar plöntur eins og t.d. fyrir fíkniefni og erfðabreytt fræ en innflutningur á erfðabreyttum fræjum er ólöglegur í Noregi eins og er. Menn hafa spurst fyrir um hvort þeir megi geyma sín eigin fræ þarna og sumir hafa meira að segja spurt hvort þeir megi geyma sitt eigið erfðaefni í formi sæðis en það var að sjálfsögðu ekki í boði.

Sjáðu þegar Veritasium heimsótti frægeymsluna

Heimildir

Croptrust.org: Svalbard Global Seed Vault FAQ
Náttúrufræðistofnun Íslands
Svalbard Global Seed Vault
ScienceAlert: Watch Inside the Doomsday Seed Vault in Svalbard