Mikilvægi bólusetninga

Bólusetningar eru af mörgum taldar einn stærsti sigur læknisfræðinnar en af öðrum taldar óþarfar og hættulegar heilsunni. Hvað segir sagan okkur og niðurstöður rannsókna? Hvað eru bóluefni og hvernig virka þau á okkur? Eru hætturnar raunverulegar og meiri en sjúkdómarnir sjálfir?

Veröldin hvetur til heilbrigðrar umræðu um bólusetningar.
Veröldin hvetur til heilbrigðrar umræðu um bólusetningar.

Bólusetningar hafa í rétt rúm tvö hundruð ár hjálpað mannkyninu að útrýma og halda í skefjum mörgum hræðilegum smitsjúkdómum. Þrátt fyrir það heyrast oft gagnrýnisraddir og órökstuddur hræðsluáróður um að bólusetningar geti verið hættulegar og jafnvel valdið einhverfu.

Nú síðast bárust fréttir frá Danmörku þess efnis að þátttaka stúlkna í bólusetningu gegn leghálskrabbameini hefur snarminnkað úr 90% í 30% í kjölfar frétta um meintar aukaverkanir bóluefnisins Gardasil. Rannsóknir hafa sýnt að Gardasil og Cervarix bóluefnin draga verulega úr forstigsbreytingum leghálskrabbameins og Gardasil dregur auk þess verulega úr kynfæravörtum.

Þessar aukaverkanir sem stelpurnar kvörtuðu yfir eru einkum þreyta, slappleiki og óljósir vöðvaverkir en nýleg rannsókn leiddi í ljós að þær stúlkur sem kvörtuðu um ofangreindar aukaverkanir voru með svipuð einkenni fyrir bólusetninguna. Lyfjastofnun Evrópu gaf út yfirlýsingu í nóvember 2015 um að engin merki væru um að Gardasil tengdist alvarlegum aukaverkunum en óttinn um þær hafði bersýnileg áhrif.

Það er vel skiljanlegt að einstaklingar og sérstaklega foreldrar hafi áhyggjur af því að börn þeirra verði fyrir skaða af völdum einhvers þegar orðrómar segja slíkt. Það er heilbrigt að efast um flest en þegar orðrómar eru einfaldlega byggðir á sandi án nokkurs marktæks rökstuðnings og jafnvel þegar niðurstöður rannsókna sýna þvert hið öfuga þá breytist efi í afneitun.

Hvað er bólusetning?

Á vef embætti landslæknis kemur fram að bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum, bakteríum eða efnum sem finnast í þessum sýklum.

Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að einstaklingar veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn. Líkamanum er sem sagt hjálpað að bera kennsl á sýkilinn svo hann geti betur varist honum síðar.

Hvaðan kemur nafnið bólusetning?

Bólusetningar draga nafn sitt af kúabólusetningunni sem breskur læknir, Edward Jenner, benti árið 1796 á að kæmi í veg fyrir bólusótt en sá sjúkdómur hefur farið einna verst með íslensku þjóðina, verst á árunum 1707-1709 þegar stór hluti Íslendinga fékk sjúkdóminn og létust þá um 16.000-18.000 manns sem var stór hluti þjóðarinnar miðað við að mannfjöldi á Íslandi á þessum árum var rétt rúmlega 50 þúsund.

Bólusótt er bráðsmitandi sjúkdómur sem herjar eingöngu á mannskepnuna og orsakast af veirunni variola virus. Áætlað er að um 300-500 milljónir manna hafi látist af völdum bólusóttar aðeins á 20. öldinni. Talið er að sjúkdómurinn hafi fylgt okkur í mörg þúsund ár en fyrstu raunverulegu heimildir er að finna á múmíu egypska faraósins Ramses V. frá árinu 1157 f.Kr.

Til Evrópu barst hann á 11. og 12. öld en allt fram að 18. öld lést tíunda hvert barn í Svíþjóð og Frakklandi af völdum bólusóttar og sjöunda hvert barn í Rússlandi. Talið er að á 18. öld í Evrópu hafi 400.000 manns látist árlega af völdum bólusóttar.

Barn smitað af bólusótt.
Barn smitað af bólusótt.

Fyrrnefndur Edward Jenner sýndi fyrstur fram á virkni bólusetninga með kúabóluvessa sem myndaði ónæmi fyrir bólusóttinni og benti hann á að hægt yrði að útrýma bólusóttinni með bólusetningum. Markmiðinu var náð um 200 árum síðar þegar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti sóttinni útrýmt árið 1980 eftir alþjóðlegt átak.

Mikilvægi bólusetninga og hjarðónæmi

Bólusetningar hafa sem betur fer verið almennar hér á landi í marga áratugi og þáttakan í þeim verið góð. Góð þáttaka er algjör forsenda forvarna farsótta en mikilvægt er að bólusetningar nái til nær allra barna í hverjum árgangi. Þannig er hægt að mynda svokallað hjarðnónæmi gegn sjúkdómi sem stöðvar útbreiðslu sjúkdómsins.

Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að sumir einstaklingar samfélagsins eru í meiri hættu fyrir skæðum smitsjúkdómum. Þar má helst nefna ungabörn sem ekki fengið allar bólusetningar. Eldra fólk og fólk með veikara ónæmiskerfi er einnig í meiri hættu á að smitast.

Þess vegna er það ekki einungis á þeirra ábyrgð sem neita að bólusetja sig eða börnin sín heldur skapa þeir um leið meiri hættu á útbreiðslu sjúkdóma í samfélaginu og setja varnarlausa einstaklinga í mikla og óþarfa hættu.

Árangur bólusetninga

Bólusetningar hafa haldið í skefjum mörgum sjúkdómum þar sem helst má nefna mislinga, kíghósta, mænusótt, stífkrampa, barnaveiki, hettusótt, rauðir hundar og meningókokkar C.

Barnaveiki var mjög algengur sjúkdómur hér áður fyrr og dró um helming sýktra barna til dauða. Hann er mjög sjaldgæfur í dag vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin gegn honum er en síðasta tilvik á Íslandi var árið 1953. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fullyrðir að engar aðgerðir séu mönnum eins hagkvæmar og bólusetningar.

Það versta við hvað árangur bólusetninga hefur verið góður er að flestir einstaklingar í dag hafa aldrei upplifað neina af þessum hræðilegu sjúkdómum sjálfir og ekki einu sinni séð þá. Þá verður líklegra að fólk fari að einblína á mögulegar hættur tengdar bólusetningunni en eitt er víst að ef fólk væri að veikjast og missa vini og nákomna þá myndi enginn hika við að þyggja bólusetningu.

Meint skaðsemi bólusetninga

Aukaverkanir bólusetninga eru yfirleitt litlar ef einhverjar. Einstaklingar gætu átt von á að fá vægan hita, roða, bólgur og almenna vanlíðan í stuttan tíma sem eru eðlileg varnarviðbrögð líkamans við utanaðkomandi sýklum og óþekktum hlutum.

Alvarlegar aukaverkanir geta komið fyrir en þær eru mjög fátíðar eða u.þ.b. hjá einu barni af hverri milljón bólusettra barna. Hugsanlegur skaði bólusetninga er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir. Þú ert því um 80 falt líklegri til að verða fyrir eldingu á lífsleiðinni heldur en að hljóta skaða af bólusetningum.

Áhyggjur um að bólusetningar valdi einhverfu

Árið 1998 birti Andrew Wakefield, ásamt 12 öðrum, grein í læknatímaritinu Lancet í Bretlandi þar sem þau greindu heilsu 12 barna þar sem sum þeirra höfðu þróað með sér merki einhverfu og ristilbólgur eftir að hafa þegið svokallaða MMR bólusetningu fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum.

Wakefield taldi nauðsynlegt að rannsaka þetta frekar og sagðist ekki geta mælt með MMR bólusetningunni. Ótal margt var að þessari annars pínulitlu og marklausu rannsókn þar sem læknaráðið í Bretlandi taldi að val á þátttakendum hafi verið hlutdrægt og að Wakefield hafi hegðað sér óheiðarlega og vísvitandi afvegaleitt fólk ásamt því að hafa brotið margar siðareglur í rannsóknum sínum.

Síðar kom í ljós að hann átti sjálfur inni beiðni um einkaleyfi á öðru samkeppnishæfu bóluefni sem var í þróun á þessum tíma. Greinin var fjarlægð úr læknatímaritinu Lancet og Wakefield var sviptur læknaleyfi í Bretlandi. Skaðinn var samt sem áður skeður þar sem tilvik mislinga hækkaði margfalt í Englandi og Bandaríkjunum. Wakefield á sér samt sem áður ótal marga stuðningsmenn í heiminum og sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem hann býr í dag.

Margar rannsókir hafa verið framkvæmdar í mörgum löndum þessu tengdu. Þar má nefna langtímarannsókn í Finnlandi sem hófst árið 1982 sem tók til þriggja milljóna skammta miðað við árslok 1996 en leiddi ekki í ljós eitt einasta tilfelli af einhverfu sem hægt var að tengja bólusetningum.

Önnur rannsókn frá Bretlandi sem tók til 498 tilfella af heilkenni einhverfu leiddi í ljós stöðuga aukningu á heilkenninu frá árinu 1979, löngu áður en MMR bólusetning hófst árið 1998. Rannsóknir frá Danmörku sem birtust í Lancet árið 1999 tók til allrar dönsku þjóðarinnar en sýndi enga tengingu milli MMR bólusetningarinnar og einhverfu.

Nýlega var svo gerð stór rannsókn í Bandaríkjunum á rúmlega 95 þúsund börnum sem áttu annað hvort systkini með eða án einkenni einhverfu, en einstaklingar sem eiga systkini með einkenni einhverfu eru líklegri til að þróa þau með sér en þau sem eiga systkini án einkenni einhverfu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu engin tengsl milli bólusetningar og einhverfu, ekki einu sinni hjá þeim sem áttu systkini með einkenni einhverfu.

Aðgerðir gegn andstæðingum bólusetninga

Margar þjóðir og ríki hafa gripið til aðgerða til að taka á þeim foreldrum sem neita að bólusetja börnin sín. Úganda hefur tekið upp á því að handtaka foreldra sem missa af bólusetningum og gætu þau átt von á sex mánaða fangelsisvist samkvæmt nýjum lögum undirrituðum af Yoweri Museveni, forseta Úganda.

Ástralir hafa þrengt að andstæðingum bólusetninga með því að skera á allar barnabætur sem geta numið allt að 11 þús. áströlskum dollurum á ári fyrir hvert barn. Forsætisráðherra þeirra, Tony Abbot, segir þetta stórt og mikilvægt heilbrigðismál og hefur hann miklar áhyggjur af hættunum sem steðja að þjóðinni allri vegna þeirra sem neita að bólusetja börnin sín.

Heilbrigðisráðherra Canada, Eric Hoskins, hefur lagt fram frumvarp sem segir til um að foreldrar sem vilji ekki bólusetningu, aðallega á trúarlegum eða siðferðislegum forsendum, skuli setjast aftur á skólabekk og læra um staðreyndir tengdar ónæmisaðgerðum. Kanadísk stjórnvöld vilja með þessu greiða úr misskilningi, slá á órökstudda ótta og veita fólki staðreyndir frá áreiðanlegum heimildum og gefa þeim kost á að taka síðan upplýsta ákvörðun.

Einn af hverjum fimm barnalæknum í Bandaríkjunum sögðu skilið við fjölskyldur barna sem neita að bólusetja börnin sín samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem birtust í Pediatrics tímaritinu í Nóvember í fyrra. Einn rannsakenda, Sean O’Leary, tók fram að samband barnalækna í Bandaríkjunum hvetji þá þó til að segja ekki skilið við þau heldur frekar reyna að skilja hvað býr að baki þessara ákvarðanna og finna um leið rökstudda aðferð til að sannfæra hikandi foreldra um að bólusetja.

Rannsaka ástæður andstæðinga bólusetninga

Dr. Bronwyn Harman, doktor við Edith Cowan Sál- og Félagfræði Háskólan í Vestur Ástralíu, rannsakar hvað býr að baki ákvarðanna þeirra foreldra sem neita að bólusetja börnin sín. Hún hefur hvatt alla þá foreldra til að hafa samband við sig og hjálpa sér með rannsóknina en hún hræðist það að margir foreldrar segi ekki rétt frá í hræðslu við að vera stimplaðir sem slæmir foreldrar.

Hún sagði margar ástæður fyrir því að foreldrar neiti að taka þátt en margir foreldrar trúa því að heilbrigt mataræði og lífstíll sé nóg til að sleppa við alvarlega smitsjúkdóma. Ein helsta ástæðan væri þó að sumir foreldrar haldi að læknar og stjórnvöld séu að reyna stýra þeim með ótta og að þau einfaldlega treysti þeim ekki. Þau trúi því þá að þau hafi rannsakað þetta nóg sjálf á internetinu, jafnvel þó að þau fái flestar upplýsingar frá óáreiðanlegum heimildum.

Heimildir

Doktor.is: Bólusetningar
Landlæknir: Bólusetningar
Landlæknir: Barnaveiki
Landlæknir: Niðurstöður frá Norræna bólusetningaþinginu 28. og 29. apríl 2016
Vísindavefurinn: Hvað er bólusótt og hvenær geisaði fyrsta bólusóttin í heiminum?
BBC: Uganda to jail parents over missed vaccinations
BBC: Australia to stop welfare cash of anti-vaccine parents
ScienceNews: Journal retracts flawed study linking MMR vaccine and autism
ScienceAlert: Just How Risky Are Vaccines?
ScienceAlert: Study of 95.000 children finds no link between MMR and autism
ScienceAlert: Ontario parents that refuse to vaccinate their kids could be forced to take a class in immunisation