Árið er 12.016 á tímaskeiði mannsins

Af hverju segjum við að árið sé 2016? Hvað með allt sem gerðist á undan því? Væri ekki rökréttara að hefja ártalið þegar maðurinn hóf að breyta heiminum í það sem hann er í dag? Sjáðu myndband Kurzgesagt um málið.

Árið er 12.016 á tímaskeiði mannsins.
Árið er 12.016 á tímaskeiði mannsins.

Alheimurinn er um 13,82 milljarða ára gamall, Jörðin er um 4,6 milljarða ára gömul, líf kviknaði á Jörðinni fyrir um 3,8 milljörðum ára, erfðafræðilega hefur maðurinn verið til í núverandi mynd í um 200 þúsund ár og síðustu 12 þúsund ár hefur maðurinn breytt heiminum sér í vil.

Hvers vegna segjum við þá að árið sé 2016 en ekki eitthvað annað? Tímatalið sem við notum í dag, Gregoríska tímatalið, miðar við fæðingu Jesú Krists en það var tekið í notkun á 16. öld. Gregoríska tímatalið var örlítil uppfærsla á Júlíska tímatalinu sem Júlíus Caesar kynnti til sögunnar árið 46 f.Kr.

Af hverju að miða tímatal mannsins við fæðingu eins manns fyrir um tvö þúsund árum þegar maðurinn hafði verið uppi að byggja bæi og borgir, rækta mat, ferðast um heiminn, stunda viðskipti, búa til verkfæri og listir í mörg þúsund ár á undan því?

Í myndbandinu frá Kurzgesagt hér að neðan stinga þau upp á nýju ári 0 þegar maðurinn hóf að byggja og hanna sinn eigin heim. Upphafið hafa þeir þegar hundruðir manna komu saman í hlíðum suður Anatólíu, sem í dag er Asíuhluti Tyrklands, fyrir um 12.000 árum.

Þessi hópur af veiðimönnum og söfnurum byggði fyrstu stóru byggingu sem vitað er um í dag. Byggingin, Göbekli Tepe, var um 300 metrar í þvermál og náði allt að 6 metra hæð, skreytt með táknmyndum af dýrum og goðsagnakenndum skepnum.

Teiknuð mynd af fyrstu stórbyggingu mannsins,
Teiknuð mynd af fyrstu stórbyggingu mannsins, Göbekli Tepe.

Við höfum enga hugmynd um hvernig þeim tókst að byggja slíkt stórvirki á þessum tíma og hver tilgangurinn var en mögulegt er að þetta hafi verið musteri til að tilbiðja forna guði.

Vísindamaðurinn Cesare Emiliani stakk upp á því árið 1993 að tímatal mannsins myndi hefjast á þessum tíma, þegar maðurinn hóf að byggja vel og mikið, á upphafi Holoscene tímabilsins 10.000 árum f.Kr. Samkvæmt Holoscene tímatalinu er því árið 12.016 í dag. Því yrði ekki erfitt að venjast og það verður að teljast nokkuð rökrétt tímatal miðað við sögu mannsins.

Leyfðu Kurzgesagt að taka þig í gegnum sögu mannsins með nýja tímatalinu og sjáðu hvort þér finnist það ekki þægilegra heldur en að miða við fæðingu Jesú Krists, sem fæddist ekki einu sinni á árinu 1 heldur líklega um 4 árum fyrir það.