Svínafósturvísir með mannafrumum ræktaður á rannsóknarstofu

Tilgangur tilraunarinnar er m.a. liður í því að geta ræktað líffæri fyrir menn í svínum í framtíðinni. Tilraunirnar vekja upp margar siðferðislegar spurningar en Salk-stofnunin færir ýmis rök fyrir jákvæðum notum fyrir þessa tækni.

Fjögurra vikna gamall fósturvísir svíns.
Fjögurra vikna gamall fósturvísir svíns.

Í fyrsta skipti í sögunni hafa mannafrumur lifað í stóru dýri1 eftir að heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna aflétti banni á slíkum tilraunum fyrir stuttu.2 Niðurstöður rannsóknarinnar birtust á dögunum í vísindatímaritinu Cell.3 Þetta er liður í því framtíðarmarkmiði að rækta líffæri fyrir menn í svínum en bara í Bandaríkjunum deyja um 22 einstaklingar á hverjum degi sem eru á biðlista eftir líffæragjöf.

Fósturvísarnir voru ekki nema um 0,001% mennskir en restin var svín. Til að búa til slíkan blending eru mennskum stofnfrumum sprautað inn í svínafósturvísinn sem síðar er komið fyrir í gylltu, en stofnfrumur eru ósérhæfðar frumur sem geta sérhæfst í allar þær rúmlegu 200 tegundir frumna í mannslíkamanum, þangað til geta þær sinnt alls kyns vefjasérhæfðum störfum.4

Aðferð tilraunarinnar.
Aðferð tilraunarinnar.

Fósturvísunum var aðeins leyft að þroskast í 28 daga, í þeim tilgangi að rannsaka hvernig frumurnar blandast og þroskast í sameiningu, en þá var þeim eytt. Tilraunin gekk brösulega að vissu leyti þar sem aðeins 186 fósturvísar af 2.075 héldu áfram að þroskast að 28 daga takmarkinu. Mikilvægast var þó að fá staðfest að mennsku frumurnar voru virkar.

Þetta er staðfesting á því að kímerur (blendingar) geti orðið til úr mönnum og öðrum dýrum. Nafnið kímera kemur úr Grískri goðafræði frá óvættinum sem hafði eldspúandi ljónshaus, geitarhöfuð á miðjum búknum og höggormshala.5

Þetta telst stórt afrek hjá þessu vísindateymi Salk-stofnunarinnar í Kaliforníu en þau hafa áður búið til kímeru árið 2015 þegar þau settu stofnfrumur úr mönnum í fósturvísa frá músum. Fyrir það höfðu þau ræktað rottu bris í músum með góðum árangri og einnig rottu augu og hjarta inni í mús. Mesta athygli vakti að þau náðu að rækta gallblöðru í mús úr rottu stofnfrumum sem er athyglisvert vegna þess að rottur hafa ekki gallblöðrur í sér.6

Tilraunirnar vekja upp óhug margra ásamt mörgum siðferðislegum spurningum en Salk stofnunin færir rök fyrir því að þetta gæti nýst okkur til þess að prufa lyf, rannsaka sjúkdóma og þroskun fósturvísa ásamt því að læra helling um muninn á líffærum milli dýrategunda.

Heimildir
  1. BBC: Human-pig ‘chimera embryos’ detailed
  2. ScienceMag: NIH moves to lift moratorium on animal-human chimera research
  3. Cell: Interspecies Chimerism with Mammalian Pluripotent Stem Cells
  4. Vísindavefurinn: Hvað eru stofnfrumur og hvert er hlutverk þeirra?
  5. Vísindavefurinn: Hver voru Bellerefón og Kímera?
  6. ScienceAlert: The first human-pig hybrid embryo has been created in the lab