Loftslagsbreytingar: eitt stærsta vandamál okkar tíma

Loftslagsbreytingar eru án efa eitt stærsta vandamál sem maðurinn stendur frammi fyrir en 97% loftslagsfræðinga eru sammála um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Hvað eru gróðurhúsalofttegundir og hvaða áhrif hafa þær á loftslagið okkar? Hvað gengur að Donald Trump og öðrum sem segjast ekki trúa vísindunum? Hver er staða Íslands í þessum málum og hvað getur þú gert?

Loftslagsbreytingar hafa orðið í kjölfar gífurlegrar losunar á gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum
Loftslagsbreytingar hafa orðið í kjölfar gífurlegrar losunar á gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum
Fjöldi rannsókna í ritrýndum vísindatímaritum sýna að rúm 97% virkra loftslagsfræðinga eru sammála um það að hlýnun jarðar er mjög líklega af mannavöldum1 en árið 2016 er heitasta ár frá upphafi mælinga2 og hlutfall gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur ekki verið hærra í minnst 800.000 ár.3

Síðast mældist koltvísýringur 405,6 milljónshlutar, í nóvember 2016, eða um 0,04% af andrúmsloftinu. Það virðis ekki mikið í fyrstu en hlutfallið hefur þó hækkað um 40% síðan maðurinn hóf að brenna jarðefnaeldsneyti í upphafi iðnbyltingarinnar þegar það mældist 280 milljónshlutar.4

En hvað er svona slæmt við koltvísýring? Hvað gerir hann að gróðurhúsalofttegund og hvernig eiga þær þátt í að verma jörðina?

Gróðurhúsalofttegundir og áhrif þeirra

Sólin sér um að verma yfirborð jarðar með varmageislun sem mælist 1370 W/m2 í efstu lögum lofthjúpsins en 30% af henni speglast til baka út í geim. Jörðin, líkt og sólin, geislar líka frá sér varma en geislun jarðar er ekki sýnilegt ljós heldur innrautt ljós sem hefur lengri bylgjulengd.5

Gróðurhúsalofttegundir eru ekki gagnsæjar innrauðu ljósi. Þær gleypa í sig varmageislunina frá jörðinni og skjóta henni í allar áttir, bæði út í geim og aftur til yfirborðs jarðar sem vermir jörðina meira.6 Helstu gróðurhúsalofttegundir eru eftirfarandi:7

 • Koltvísýringur (CO2): mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin, sem maðurinn losar í andrúmsloftið í miklu mæli með bruna jarðefnaeldsneytis og annarra efna í orkuverum. Styrkur koltvísýrings í andrúmslofti sveiflar eftir árstíðum. Á sumrin eykst upptaka koltvísýrings vegna ljóstillífunar plantna en á veturna losnar koltvísýringur í andrúmsloftið þegar lífrænar leifar rotna í náttúrunni. Menn trufla hið náttúrulega jafnvægi með óhóflegri losun koltvísýrings ásamt breyttri landnotkun og eyðingu skóga.
  203_co2-graph-021116
  Hlutfall koltvísýrings í andrúmsloftinu síðastliðin 400.000 ár. Mynd frá NASA: http://climate.nasa.gov/evidence/
 • Metan (CH4): myndast þegar lífrænt efni rotnar við loftfirrðar aðstæður. Metan, sem er um 25 falt áhrifaríkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur,8 myndast í miklu mæli við meltingu í maga húsdýra og við meðhöndlun húsdýraáburðar en losnar einnig frá votlendi og sorphaugum.
 • Vatnsgufa (H2O): algengasta gróðurhúsalofttegundin þó að maðurinn hafi ekki bein áhrif á magn vatnsgufu í andrúmsloftinu. Styrkur hennar mun þó aukast með hækkandi hitastigi sem leiðir af sér aukna uppgufun.
 • Dínituroxíð (N2O): helstu manngerðar uppsprettur dínituroxíðs, sem margir þekkja sem hláturgas, eru landbúnaður, iðnaðarferlar og eldsneytisbrennsla. Áburðarnotkun í landbúnaði leiðir til losunar dínituroxíðs þegar nítrat afoxast í jarðvegi.
 • Halogeneruð vetniskolefni, perflúorkolefni og brennisteinshexaflúoríð: eru hópur manngerðra efna sem innihalda halogen (bróm, klór og/eða flúor). Halogeneruð vetniskolefni (CFC, HCFC, halón) eru hópur efna sem innihalda halogena og vetniskolefni. Þessi efni hafa m.a. verið notuð á kæli- og slökkvikerfi, sem leysiefni og í iðnaði og þau valda eyðingu ósonlagsins. Vetnisflúorkolefni eru ekki ósoneyðandi en valda auknum gróðurhúsaáhrifum.

Efasemdamenn hafa reynt að útskýra hækkandi hitastig með alls konar náttúrulegum útskýringum á borð við breytingu í sporbraut jarðar, hækkun hitastigs sólarinnar, áhrif eldgosa, skógareyðingar og margt fleira. NASA tók saman gögn um alla þessa áhrifavalda og bar þá saman við aukningu gróðurhúsalofttegunda og hækkunar á hitastigi í mjög lýsandi myndbandi.

Orka frá sólinni hefur lítið sem ekkert aukist frá árinu 1750 og það sama má segja um breytingu á virkni eldfjalla. Það sem hefur breyst langmest er hlutfall gróðurhúsalofttegunda sem hefur ekki mælst hærra í minnst 800.000 ár. Hægt er að mæla hlutfall koltvísýrings í andrúmslofti, sem er fast í litlum loftbólum í ís, langt aftur í tímann.

Vegna gróðurhúsaáhrifa hefur meðalhitastig jarðar hækkað um 0,87 °C frá upphafi mælinga árið 1880 og 10 heitustu árin hafa öll verið síðastliðin 19 ár.9

Hverjar eru afleiðingar loftslagsbreytinga?

Loftslagsbreytingar hafa þegar haft auðsjáanleg áhrif á jörðina og íbúa hennar. Hafís hefur aldrei mælst minni en nú,10 yfirborð sjávar hefur hækkað, vistkerfi hafa gjörbreyst með þeim afleiðingum að dýra- og plöntutegundir deyja út í margfalt meira mæli en áður. Hafið hefur einnig súrnað vegna aukinnar upptöku á koltvísýringi11 en það hefur haft og mun eflaust hafa gríðarleg áhrif á lífríki sjávar eins og sést víðs vegar um heiminn m.a. með eyðileggingu stærsta kóralrifs Japans.12

Eyðilegging kóralrifja er gríðarlega slæm en kóralrifjum mætti líkja við að vera eins og regnskógar hafsins verandi með tegundaauðugustu vistkerfum jarðar. Líklegt þykir að loftslagsbreytingar ásamt hlýnun og súrnun sjávar geti breytt vistkerfum dýra og plantna hraðar en þau geta aðlagast með þeim afleiðingum að ótal tegundir deyji út. Síðustu 500 milljónir ára hefur Jörðin farið í gegnum 5 risastórar útrýmingar13 á lífverum t.d. vegna harðrar ísaldar, eldgosahrina og loftsteina en allt bendir til þess að sjötta stóra útrýmingin verði af mannavöldum.14

Talið er að veðurfar verði svæðisbundið ofsafengnara á alla máta, þ.e. fleiri flóð, hvirfilbyljir, stormar, meiri úrkoma, harðari vetur, lengri og heitari hitabylgjur og meðfylgjandi þurrkar. Þar sem plöntur vaxa best á ákveðnu bili hitastigs mun hækkandi hitastig og öfgakennt veðurfar hafa áhrif á uppskeru í matrækt og mögulega skapa aðstæður fyrir alls kyns plágur sem gætu herjað á uppskeruna okkar og dýrin sem við ræktum.15 Það mun gera okkur erfiðara fyrir að fæða þá 9 milljarða manna sem verða á jörðinni í kringum 2050 og mun eflaust leiða til hækkunar á matarverði.

img_0124
Hættur loftslagsbreytinga miðað við meðalhækkun hitastigs. Source: http://www.nature.com/nclimate/journal/v7/n1/full/nclimate3179.html
Loftslagsflóttafólk er ört stækkandi hópur en alþjóðlegi Rauði Krossinn metur svo að það sé fleira fólk á flótta vegna umhverfisvandamála eins og náttúruhamfara heldur en pólitískir flóttamenn á flótta undan t.d. stríði. Líklegt þykir að æ fleira fólk muni þurfa að flýja aðstæður sínar í framtíðinni ef hækkandi hitastig, flóð og hvirfilbyljir eyðileggji umhverfi og uppskeru.16 Með hækkandi sjávarmáli eru margar þjóðir í mikilli hættu en talið er að allt að 650 milljón manna búi á landi sem muni hverfa undir sjó fyrir árið 2100 með óbreyttri stefnu.17

Parísarsamkomulagið

Í desember árið 2015 komust öll heimsins ríki í fyrsta skipti að samkomulagi um að berjast gegn loftslagsbreytingum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja þróunarríkjum mikið fjármagn ár hvert í loftslagsaðstoð og til grænna lausna.  Helstu atriðin í Parísarsamkomulaginu eru eftirfarandi:18

 • Markmiðið er að halda hlýnun lofthjúpsins innan við 2°C í lok aldarinnar og helst innan við 1,5°C með öllum mögulegum ráðum.
 • Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu skal ná hámarki sem fyrst og markmið er sett um að losun af mannavöldum verði í jafnvægi við upptöku kolefnis í náttúrunni.
 • Farið verður yfir stöðu mála hjá hverju ríki á 5 ára fresti og í kjölfar þess skulu ríki búa til ný markmið sem eiga að vera eins metnaðarfull og mögulegt er.
 • Þróunarríki skulu hafa aðgang að 100 milljörðum dollara árið 2020, og áfram á ári hverju, til að fjármagna loftslagsmál og þróun á grænum lausnum.
 • Settar eru fram kröfur um bókhald yfir nettólosun ríkja.
 • Viðurkennt er að bregðast þurfi við skaða sem fátæk ríki verða fyrir vegna áhrifa loftslagsbreytinga, bæði við að draga úr líkum á skaða og bregðast við tjóni sem verður.

Barack Obama, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sagði samkomulagið metnaðarfullt og að það sýndi hvað væri mögulegt þegar að heimurinn stendur saman. Þrátt fyrir það viðurkenndi hann að samkomulagið væri ekki fullkomið og er það væntanlega vegna þess að þjóðir þurfa í raun ekki að taka þátt. Þeim ber lagaleg skylda til þess að setja sér markmið um að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og að fara reglulega yfir þau markmið, en þeim ber samt sem áður engin lagaleg skylda til þess að ná markmiðunum.19

Donald Trump og aðrir andstæðingar loftslagsbreytinga

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur lengi efast um réttmæti loftslagsbreytinga og gert lítið úr kenningum vísindamanna um þær ógnir sem þær kunna að valda. Trump hefur sagt að þær litlu breytingar sem orðið hafa séu ekki af mannavöldum og hefur meira að segja látið það út úr sér að líklegt þyki að Kínverjar hafi búið til þessar kenningar til að ná forskoti á Bandaríkin.

trumpdigscoal
Donald Trump, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, er stuðningsmaður jarðefnaorku og reynir með öllu móti að hindra þróun í endurnýjanlegri orku.

Markmið Trump er að styrkja jarðefnaeldsneytisiðnaðinn og skera niður og loka á nær allar núverandi áætlanir tengdar loftslagsbreytingum sem forveri hans, Obama, hafði sett á, þar sem helst má nefna þátttöku Bandaríkjanna í Parísarsamkomulaginu, greiðslur til Sameinuðu þjóðanna20 og NASA,21 sem færir okkur gríðarlega miklar upplýsingar um hitastig, ís, ský og önnur fyrirbæri sem gefa okkur innsýn í loftslagið og breytingarnar sem hafa orðið á því.

Trump valdi þess vegna einn þekktasta andstæðing og afneitara loftslagsbreytinga, Myron Ebell, til að stýra Bandarísku umhverfisverndarstofnuninni. Umhverfisverndarstofnunin, undir stjórn Obama, hafði áður sett á stefnuna Clean Power Plan til að minnka losun gróðurhúsalofttegundir við framleiðslu á rafmagni. Ebell, sem er að stórum hluta styrktur af kolaiðnaðinum, vill loka á þessa stefnu vegna þess að hún eigi að vera skaðleg efnahagi Bandaríkjanna.22

Ebell segir hlýnun Jarðar smávægilega og aðeins mögulega af mannavöldum. Hann segir að loftslagsbreytingar verði ekki vandamál fyrr en í fyrsta lagi eftir 100-200 ár og að þangað til verði markmiðið að vera að auka aðgang heimsins að alls kyns orku. Ebell, undir stjórn Trump, ætlar að fjarlægja allar upplýsingar um loftslagsbreytingar á heimasíðu Bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar, https://www.epa.gov/climatechange, sem er m.a. notuð sem heimild við vinnslu þessarar greinar.

Það er engin tilviljun að allir helstu talsmenn gegn loftslagsbreytingum, eins og Donald Trump, James Inhofe, Ted Cruz og hin 56% þingmanna repúblikanaflokksins,23 eru styrktir af þeim sem hagnast á óbreyttu ástandi. Eins og kom fram í myndbandinu hér að ofan hafa Koch bræðurnir David og Charles hagnast gífurlega af olíuiðnaði og frá árinu 1997 er talið að þeir hafi sett rúmar 88 milljónir dollara í alls konar hópa og verkefni þar sem eina markmiðið er að villa fyrir í umræðunni um loftslagsbreytingar.24

Af hverju trúa sumir ekki loftslagsvísindum?

Þegar 97% af öllum loftslagsfræðingum eru sammála um að loftslagsbreytingar eru í alvörunni að gerast og að þær séu að öllum líkindum að mannavöldum, af hverju er til fólk sem trúir þeim ekki? Fyrir utan allar þær villandi upplýsingar sem koma frá hagsmunaaðilum þá vill fólk oft ekki trúa sönnunargögnum sem eru beint fyrir fram þau vegna þess að við eigum erfitt með að aðskilja tilfinningar okkar frá ákvarðanatöku.

Maðurinn er ákveðið íhaldssamur að eðlisfari25 með tilliti til þess að við reynum að halda í okkar núverandi mynd af því hvernig heimurinn er og eyða sem minnstri orku í að hugsa um hluti heldur dæmum við þá frekar eftir fyrrverandi reynslu og tilfinningum sem þeir vekja eða eftir því hvað félagshópum sem við tilheyrum, t.d. stjórnmálaflokki, trúarfélagi, vinahópi, finnast um málið.

Fólk á einnig til að bregðast frekar við ógnum sem innihalda fyrirvaralausan sársauka sem gerist núna en ekki einhverju sem gæti gerst eftir langan tíma, enda er það bara seinni tíma vandamál…

Björtu hliðarnar

Ef maður einblýnir á allar neikvæðu fréttirnar þá missir maður alla von. Sem betur fer er einnig margt jákvætt í gangi í veröldinni í dag en eftir árið 2016 er fyrst eitthvað vit í því að vera bjartsýnn varðandi þróunina í tengslum við loftslagsbreytingar. Þrátt fyrir hrikalega nýja stjórnmálastefnu í Bandaríkjunum hafa framfarir í tækni og lækkun á kostnaði á þeirri tækni verið afar jákvæðar.

Verð á sólarorku féll um önnur 15% árið 2016 sem þýðir að nú er sólarorka ódýrasti orkugjafinn víða um heim.26 Kínverjar hafa sett sér markmið um að bæta við 40 gígavöttum árlega frá sólarorku næstu árin, sem er rúmlega helmingur allrar þeirrar orku sem bættist við frá sólarorku í öllum heiminum árið 2016. Indverjar hafa einnig sett sér svipuð markmið sem þýðir að þessar tvær langfjölmennustu þjóðir heims munu bæta við meiri sólarorkustöðvum en allur heimurinn gerði fyrir tveimur árum.

Vindtúrbínur hafa einnig fallið í verði sem bestu spár töldu að mundu nást eftir um áratug og talið er að sólarorka muni verða um helmingi ódýrari en jarðefnaorka á þessum áratugi. Alþjóðlega orkustofnunin spáir því að 60% nýrrar raforkuframleiðslu á næstu fimm árum muni koma frá kolefnislausum orkugjafa.

Vind- og sólarorka, sem munu verða okkar helstu orkugjafar í náinni framtíð, geta ekki séð okkur fyrir orku allan sólarhringinn, í logni og þegar dimmir, en framfarir í skammtíma orkugeymslu eins og í batteríum hafa gengið vonum framar. Elon Musk og teymið hans hjá Tesla vinna nú hörðum höndum í gígaverksmiðju sinni að koma verði á batteríum niður þannig að almenningur hafi efni á þeim.

 • Af fleiri frábærum fregnum má nefna að rúmlega 170 þjóðir samþykktu alþjóðlegt bann á manngerðu gróðurhúsalofttegundinni vetnisflúorkolefni sem er um 1.000 falt áhrifaríkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.27
 • Justin Trudeu, forsætisráðherra Kanada, tilkynnti í október á síðasta ári að hann gæfi Kanadabúum til ársins 2018 til að aðlagast kolefnaskatti sem er af mörgum talin vera eitt besta vopnið í baráttunni við losun kolefnis í andrúmsloftið.28
 • Teymi vísindamanna í Þýskalandi hefur hannað kerfi eftir fyrirmynd plantna þar sem Rubisco, algengasta prótein á Jörðinni, tekur upp kolefni í ljósóháða ferli ljóstillífunar sem einnig nefnist Calvin-hringrásin. Þau skoðuðu gagnabanka með 40.000 þekktum ensímum hvaðan af úr lífheiminum og völdu 17 ensím úr 9 mismunandi lífverum sem endurskapa Calvin-hringinn en fyrstu niðurstöður úr rannsóknarstofunni gáfu 20 falt betri niðurstöður í upptöku kolefnis en Rubisco nær í náttúrunni.29
 • Teymi vísindamanna á Íslandi hafa unnið að CarbFix loftslagsverkefninu við jarðgufuvirkjun Hellisheiðarvirkjunar frá árinu 2007 en þau hafa náð að binda kolefni í grjóti á stuttum tíma með góðum árangri.30 Koltvíoxíð var leyst í vatni í niðurdælingarholu og kolsýrða vatnið rann síðan um jarðlög á rúmlega 500 m dýpi. Þar var sýnt fram á að >95% af því koltvíoxíði sem CarbFix-hópurinn dældi niður steinrann á innan við 2 árum en ekki öldum eða árþúsundum eins og áður var talið.31
 • Finnland ætlar að verða fyrsta landið í heiminum til að hætta að brenna kol fyrir árið 2030. Á meðan Bretland og Kanada hafa ákveðið að jafna útblástur kolefna við brennslu á kolum á næstum 10 til 15 árum þá mega kolaversmiðjurnar þar samt starfa áfram svo lengi sem þær taka upp leyst kolefni og geyma eða endurvinna það. Oli Rehn, efnahagsmálaráðherra Finna, segir að hætta brennslu á kolum einu leiðina til að ná alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum.32
 • Starfsmenn efnaverksmiðjunnar Tuticorin Alkali Chemicals plant í Indlandi eru fyrstir í heiminum til að fanga útblástur á koltvísýring og umbreyta honum í matarsóda eða natríumbíkarbónat (NaHCO3). Þau stefna að því að umbreyta 60 þúsund tonnum af koltvísýringi í matarsóda og önnur efni á ári hverju en vísindamennirnir á bakvið tæknina segja að tæknin geti fangað og umbreytt um 10% af allri losun kolefnis frá kolabrennslu í heiminum.33
 • Milljarðamæringurinn Bill Gates, ásamt um tuttugu öðrum fjárfestum, hefur stofnað sjóð sem kallast Breakthrough Energy Ventures sem inniheldur einn milljarð bandaríkjadollara. Tilgangur sjóðsins er að fjárfesta í byltingarkenndum uppfinningum sem hafa möguleikan á því að framleiða ódýra, áreiðanlega og hreina orku fyrir heimin allan. Gates vill með þessu fjárfesta í góðum hugmyndum og koma þeim frá rannsóknarstofu á markaðinn.34
 • Samkvæmt niðurstöðu nýrrar norrænar rannsóknar, Green to Scale, sem var kynnt á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP22) í Marrakech gæti beiting 15 norrænna loftslagslausna á stórum skala dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 4 gígatonn á heimsvísu, en það jafngildir losun Evrópusambandsins í dag. Kostnaðurinn við að útfæra þessar lausnir næmi niðurgreiðslum ríkja heims á jarðefnaeldsneyti í 9 daga.35

Hver er staða Íslands í loftslagsmálum?

Ísland er á heimsmælikvarða þegar kemur að vinnslu jarðvarmaorku en til samans byggjast 72% af heildarorkunotkun landsmanna á endurnýjanlegum orkugjöfum og um 87% af öllum húsum í landinu eru hituð með beinni nýtingu jarðvarma.36 Heildarlosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum árið 2014 var um 4.600 kílótonn af CO2 ígildum en hér fyrir neðan má sjá skiptingu á losun eftir uppsprettu.37

Losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum eftir uppsprettu. Mynd frá Umhverfisstofnun.
Losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum eftir uppsprettu. Mynd frá Umhverfisstofnun.
Á nýliðinni ráðstefnu, Green to Scale, sem haldin var bæði í Reykjavík og á Akureyri um daginn benti Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í Umhverfis- og auðlindafræði við Hagfræðideild og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands,38 á að Ísland gæti gert mun betur í skógrækt, samgöngumálum og landbúnaði þar sem ná mætti markmiðum með t.d. rafbílavæðingu, aukinni notkun lífeldsneytis í samgöngum, göngu og hjólreiðum og metanvinnslu úr úrgangi frá landbúnaði.39

Samkvæmt skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði40 væri hægt að vinna metan úr búfjáráburði sem til fellur í landbúnaði og þannig mætti mæta eldsneytisþörfinni að miklu leyti en áætluð metanvinnsla úr búfjáráburði er 17 kt CH4 sem samsvarar um 20 kt af díselolíu en eldsneytisnotkun í landbúnaði er alls um 25 kt af díselolíu og bensíni.

Eins og sést á myndinni hér að ofan er mesta losunin (fyrir utan landnotkun) í iðnaði og efnanotkun en kol eru brennd í stórum stíl hér á landi eða um 0,42 tonn á hvern Íslending. Kolanotkun hefur tvöfaldast hér á landi frá árinu 1993 en Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík og kísilver PCC á Bakka við Húsavík nota öll kol í sinni framleiðslu. Samkvæmt spá Orkustofnunar er talið að kolanotkun muni aukast um 60% á næstu þremur árum og verður hún því um 0,66 tonn á hvern Íslending árið 2018.41

Sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum var sett fram í aðdraganda 21. aðildaríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í París í desember 2015. Í áætluninni eru sett fram 16 verkefni sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum.42

Með verkefnunum er áhersla lögð á samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs um að draga úr losun í tilteknum greinum og ýta undir nýsköpun og loftslagsvænar lausnir. Þar má helst nefna orkuskipti í samgöngum, átak í innviðum varðandi rafbílavæðingu, vegvísi íslensks sjávarútvegs um samdrátt í losun, loftslagsvænni landbúnað, efling í skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis, átak gegn matarsóun, kolefnisjöfnun og bætt loftslagsbókhald.

Um 103 fyrirtæki og stofnanir skrifuðu svo undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París. Samkvæmt henni skuldbinda aðilar sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr gróðurhúsalofttegundum og úr úrgangi. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega. Þetta eru alls konar fyrirtæki og menntastofnanir en samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna er rúmlega 43 þúsund fyrir utan þá 30 þúsund nemendur sem tengjast menntastofnunum sem taka þátt í verkefninu.43

Hvað getur þú gert?

Samkvæmt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu nemur losun á hvern Íslending 14 tonnum af koltvísýringi árlega. Það er meira en tvöfalt meðaltal íbúa á heimsvísu sem er 6 tonn en í Evrópu er meðaltalið 9 tonn. Niðurstöður meistararannsóknar Sigurðar Eyberg í Umhverfis- og auðlindafræði benda til þess að Íslendingar séu neyslufrekasta þjóð jarðar.44 Vísirinn sem Sigurður notaði til að reikna vistsporið þarf þó að bæta að hans mati en engu að síður bentu útreikningar hans til þess að vistspor Íslendinga væri stærst í heimi.

Þú getur minnkað kolefnisfótspor þitt með margvíslegum leiðum og enginn býst við að þú sért að fara bjarga heiminum eins þíns liðs. Áhrifaríkast yrði að fækka flugferðum og óþarfa bílferðum, nota almenningssamgöngur, hjóla og ganga meira. Þú getur flokkað ruslið þitt eftir plasti, pappa og lífrænum úrgangi, þú getur minnkað matarsóun, borðað minna aðflutt og minna kjöt,45 gróðursett meira og síðast en ekki síst getur þú sparað pening og losun kolefnis með því að kaupa minna af óþarfa drasli. Þú getur upplýst þig um hvernig þú getur haft áhrif og um leið upplýst aðra.

Margt smátt gerir eitt stórt, hjá þér og hjá öllum hinum rúmlega sjö milljörðum manna á jörðinni.

Heimildir

 1. NASA: Evidence
 2. New Scientist: 2016 confirmed as the hottest year on record
 3. Nature: High-resolution carbon dioxide concentration record 650,000-800,000 years before present
 4. NASA: Carbon Dioxide
 5. Vísindavefurinn: Hvað er innrautt ljós og til hvers er hægt að nota það?
 6. Veður: Gróðurhúsaáhrif
 7. Umhverfisráðuneytið: Gróðurhúsalofttegundir
 8. US Environmental Protection Agency: Overview of Greenhouse Gases
 9. NASA: Global Temperature
 10. New Scientist: Global sea ice is at lowest level ever recorded
 11. NASA: Effects
 12. The Guardian: Almost 75% of Japan’s biggest coral reef has died from bleaching
 13. Cosmos Magazine: Big Five Extinctions
 14. ScienceMag: Accelerated modern human–induced species losses: Entering the sixth mass extinction
 15. National Climate Assessment
 16. National Geographic: Climate Refugee
 17. The Weather Channel: 20 Countries Most At Risk From Sea Level Rise
 18. Umhverfisráðuneytið: Parísarsamkomulagið
 19. BBC: Paris climate deal is ‘best chance to save planet’
 20. National Geographic: The Global Dangers of Trump’s Climate Denial
 21. Richard Dawkins: Trump to scrap Nasa climate research in crackdown on ‘politicized science’
 22. New York Times: Trump’s Climate Contrarian: Myron Ebell Takes On the E.P.A.
 23. Moyers&Company: Here Are the 56 Percent of Congressional Republicans Who Deny Climate Change
 24. Greenpeace: Koch Industries: Secretly Funding the Climate Denial Machine
 25. ScienceDaily: Exploring status quo bias in the human brain
 26. TheGuardian: Reasons to be cheerful: a full switch to low-carbon energy is in sight
 27. UKBusinessInsider: 6 pieces of exceptionally good news for the future of the planet
 28. CBCnews: Justin Trudeau gives provinces until 2018 to adopt carbon price plan
 29. ScienceAlert: Scientists have developed a synthetic way to absorb CO2 that’s way faster than plants
 30. Science: Rapid carbon mineralization for permanent disposal of anthropogenic carbon dioxide emissions
 31. Vísindavefurinn: Hvernig fara vísindamenn að því að breyta koldíoxíði í grjót?
 32. ScienceAlert: Finland plans on being the first country in the world to phase out coal for good
 33. ScienceAlert: An Indian chemical plant has figured out how to turn its carbon emissions into baking soda
 34. Forbes: Bill Gates Launches $1 Billion Breakthrough Energy Investment Fund
 35. GreenToScale: Beiting 15 Norrænna Loftslagslausna Á Stórum Skala Gæti Dregið Úr Losun Gróðurhúsalofttegunda Um 4 Gígatonn Á Heimsvísu
 36. Utanríkisráðuneytið: Orkumál
 37. Umhverfisstofnun: Losun Íslands
 38. Háskóli Íslands: Brynhildur Davíðsdóttir
 39. Skógræktin: Mögulegt að rækta skóg til kolefnisbindingar á verði losunarheimilda
 40. Umhverfisráðuneyti: Greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði
 41. RÚV: Íslendingar brenna kolum í stórum stíl
 42. Umhverfisráðuneyti: Sóknaráætlun í loftslagsmálum
 43. Háskóli Íslands: Háskóli Íslands aðili að yfirlýsingu um loftslagsmál
 44. RÚV: Ekki víst að Kínavörur mengi mest
 45. TheGuardian: UN urges global move to meat and dairy-free diet