Tveir einstaklingar hafa keypt sér far til tunglsins og verða þeir fyrstu menn sem heimsækja tunglið í 45 ár.

Elon Musk tilkynnti í dag að fyrirtækið SpaceX hafi áætlað að senda tvo óbreytta borgara á sporbraut umhverfis tunglið og tilbaka en nú þegar eru þeir að skipuleggja ferð annars hóps til Alþjóðageimstöðvarinnar.1 Þessir heppnu og eflaust moldríku einstaklingar kjósa að halda nöfnum sínum leyndum eins og er en þeir eru sagðir hafa þegar greitt fyrir farið.
Musk telur að þetta ætti að verða gífurlega spennandi verkefni sem muni eflaust kveikja áhuga heimsins á því að senda fólk út í geim á ný en 45 ár eru síðan maðurinn heimsótti tunglið síðast. Árið 2018 mun ný Falcon Heavy eldflaug skjóta Crew Dragon geimflauginni af stað í vikulangt ferðalag en meðalfjarlægð til tunglsins frá jörðu er 384.400 km.2

Samkvæmt þessu verður SpaceX á undan NASA til að gera slíkt hið sama en NASA áætlar að senda geimfara á sporbraut umhverfis tunglið í kringum árið 2020. Musk hefur látið NASA vita að ef þau vilja nota SpaceX til að senda geimfara umhverfis tunglið þá fá þau hans leyfi.
„Ég er ekki viss hvort við verðum á undan eða á eftir NASA,“ sagði Musk. „En ég er ekki viss um að það sé aðal málið. Ég held að það sem skipti máli séu framfarir í könnun geimsins. Því meira því betra.“ Þetta er allt saman liður í framþróun SpaceX sem ætlar á endanum að senda mannað geimfar til Mars.
Sjáðu hvernig SpaceX hyggst ferðast til Mars
Heimildir