Byltingarkennd framför í baráttunni við MS og aðra taugasjúkdóma

Vísindamenn hafa uppgötvað sérstakar frumur ónæmiskerfisins sem framleiða prótein sem hvetja heilann til að gera við sjálfan sig og miðtaugakerfið.

Fágriplufrumur (e. Oligodendrocytes, grænar) og mýli (e. Myelin, rautt). Mynd frá Queen’s Háskólanum í Belfast.

Vísindamenn við Queen’s háskólann í Belfast, Norður-Írlandi, hafa uppgötvað sérstakar frumur ónæmiskerfisins sem gegna mikilvægu hlutverki í viðgerðum á miðtaugakerfinu eða heila og mænu.1 Uppgötvunin er byltingarkennd en þetta gæti t.d. hjálpað okkur að finna lausn á meðferðum við taugasjúkdómum á borð við MS-sjúkdómi (heila- og mænusiggi) sem hrjáir um 2,3 milljón manna um allan heim. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í ritrýnda vísindatímaritinu Nature Neuroscience í síðustu viku.2

Multiple sclerosis (MS) er bólgusjúkdómur í miðtaugakerfi sem talinn er vera sjálfsofnæmissjúkdómur sem tengist samspili erfða og umhverfis. Sjúkdómurinn kemur í köstum og geta einkenni og gangur hans verið margbreytilegur. 3 MS einkennist af mörgum aðskildum bólgublettum á taugavefjum eins og sjóntaug, heilastofni og mænu og einkennast bólgublettirnir af eyðingu mýlis (e. myelin) og íferð bólgufrumna. T-frumur eru mest áberandi í bólgusvarinu ásamt óeðlilegri mótefnamyndun og fækkun fágriplufrumna (e. oligodendrocytes) dregur úr hraða taugaboðanna. Bólgan getur einnig fækkað taugasímum (e. axons) sem er talið skýra að einkenni ganga ekki alltaf til baka og geta sjúklingar misst sjón, orðið síþreyttir, lamast og sumir láta lífið á endanum.4

Fágriplufruma (e. Oligodendrocyte) gerir við mýlisslíðrið (e. Myelin Sheath) sem einangrar taugasímann (e. Axon) svo að taugaboð berist allt að 100 falt hraðar.

Hingað til hefur sjúkdómurinn verið ólæknanlegur þó læknar hafi getað dregið úr einkennum, stytt og fækkað köstum í takmarkaðan tíma.5 Rannsókn vísindateymisins í Belfast sýndi fram á prótein, framleitt af sérstökum frumum ónæmiskerfisins, sem fær stofnfrumur miðtaugakerfisins (heila og mænu) til að þroskast í frágriplufrumur (e. oligodendrocytes) sem gera við mýlisslíðrið.

Uppgötvunin þýðir að vísindamenn geta nú þróað lyf sem örva myndun þessara frumna og búið til nýjar meðferðir í framtíðinni. Vísindateymið var leitt af Dr. Yvonne Dombrowski og Dr. Denise Fitzgerald og samanstóð af sérfræðingum í ónæmisfræði, taugalækningum og stofnfrumufræði.

Einn aðalhöfundur rannsóknarinnar, Dr. Denise Fitzgerald, barðist sjálf við svipaðan sjúkdóm sem kallast á ensku Transverse Myelitis þegar hún var 21 árs og hefur þurft að læra að labba á ný. Hún segir niðurstöðurnar mikilvægt skref áfram í að skilja hvernig heilinn og mænan gera við sig á náttúrulegan hátt og býður þetta upp á marga möguleika fyrir meðferðir í framtíðinni.

Heimildir

  1. Medical Xpress: Researchers make major brain repair discovery in fight against multiple sclerosis
  2. Nature Neuroscience: Regulatory T cells promote myelin regeneration in the central nervous system
  3. Læknablaðið: Multiple Sclerosis – yfirlit um einkenni, greiningu og meðferð
  4. Vísindavefurinn: Hvað er heila- og mænusigg og er til lækning við því?
  5. Doktor.is: MS-sjúkdómur