Alþjóðlegur dagur jarðar og vísindaganga

Í dag er alþjóðlegur dagur jarðar sem tileinkaður er umhverfis- og loftslagslæsi. Í tilefni dagsins var gengið í þágu vísinda um allan heim.

Ein flottasta mynd sem til er af jörðinni, frá NASA.

Alþjóðlegur dagur jarðar árið 2017 er tileinkaður umhverfis- og loftlagslæsi (e. Environmental and Climate Literacy). Þörfin fyrir alþjóðasamfélag sem þekkir hugtökin um loftslagsbreytingar og hættur þeirra fyrir jörðina og vistkerfi hennar er brýn. Liður í þessari vitundarvakningu er meðal annars stór og mikil vísindaganga sem skipulögð var í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, og mörgum öðrum borgum í heiminum, þ.á.m. Reykjavík.

Veröldin birti nýlega nokkuð ítarlega grein um loftslagsmál fulla af upplýsingum og heimildum sem sjá má hér:

Loftslagsbreytingar: eitt stærsta vandamál okkar tíma

Umhverfi vísindamanna hefur breyst undanfarið eftir kjör Donald Trump til forseta Bandaríkjanna og er óhætt að segja að vísindi þar eigi undir högg að sækja en viðhorf og stefna stjórnar hans eru óneitanlega oft á skjön við vísindalega þekkingu t.d. þegar kemur að loftslags- og umhverfisvísindum.

Margir lögðu leið sína í miðborg Reykjavíkur í dag til að taka þátt í vísindagöngunni en markmið hennar var meðal annars að vekja athygli á vísindum sem einni af meginstoðum lýðræðislegs samfélags sem þjónar sameiginlegum hagsmunum þjóða og stuðlar m.a. að upplýstum ákvörðunum í þágu almennings. Hægt er að upplýsa sig frekar um þetta framtak á www.earthday.org ásamt #earthday og #marchforscience á samfélagsmiðlunum facebook og twitter.

Í tilefni dagsins er vel við hæfi að dást að og bera virðingu fyrir þessu magnaða fyrirbæri sem er jörðin, eina heimili okkar í alheiminum. Sjáðu þetta magnaða myndband af jörðinni frá Alþjóðageimstöðinni eftir Michael König.