Húðflúr sem gagnvirkur lífskynjari á blóðsykur, salt og sýrustig

Vísindamenn þróa blek fyrir húðflúr sem breytir um lit eftir aðstæðum í líkamanum. Tækni sem gæti reynst afar vel fyrir sykursjúka og aðra sem vilja fylgjast með heilsunni.

Tæknin verður eflaust kærkomin fyrir marga sykursjúka.

Vísindamenn við MIT-háskóla og læknadeild Harvard-háskóla hafa unnið saman, í DermalAbyss1 verkefninu, að því að þróa blek sem virkar sem lífskynjari, þ.e. tæki sem greinir lífræn merki, eins og t.d. hlutfall sykurs og salts í blóði.

Hugmyndin er að nota þetta tæknilega blek fyrir húðflúr og þannig mætti lesa aðstæður innra með þér beint af húðinni eftir því hvaða litir eru sjáanlegir, en slíkt myndi koma sér afar vel fyrir t.d. sykursjúka sem margir hverjir þurfa að mæla blóðsykurinn sinn oft á dag.

Hingað til hefur rannsóknarteymið þróað þrjú mismunandi blek sem breyta um lit í takt við breytingar í millifrumuvökva sem er umhverfis allar frumur líkamans en hann er í kringum 16% af líkamsþyngdinni.2

Ein blektegundin breytist úr bláum lit yfir í brúnan eftir hlutfalli sykurs í blóði, önnur tegund breytist úr bleikum lit yfir í fjólubláan eftir sýrustigi millifrumuvökvans og þriðja tegundin lýsist græn á lit undir útfjólubláu ljósi þegar hlutfall salts (Natríum jóna) í blóði eykst.

Hér má sjá dæmi um lit bleksins eftir aðstæðum. Mynd frá Dermal Abyss.

Verkefnið er enn á stigi þróunar og rannsókna og því er eflaust einhver tími í það að menn geti nýtt sér þessa tækni en að sögn Xin Liu, vísindamanns í teyminu, hafa þegar margir sykursjúkir haft samband og beðið um að fá að prófa.

Tæknin þarf fyrst að yfirstíga alls kyns prófanir áður en hún verður samþykkt fyrir almenna notkun en þar má helst nefna ofnæmisprófanir og aðrar mögulegar skaðlegar aukaverkanir. Einnig þarf að passa upp á að tæknin sé afar nákvæm eða að minnsta kosti eins nákvæm og blóðprufur svo hægt sé að reiða sig á hana.

Eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan er verið að prófa blekið á svínaskinni og þau breyta aðstæðum innan þess með sprautum.

Heimildir

  1. Dermal Abyss: Possibilities of Biosensors as a Tattooed Interface
  2. ScienceAlert: MIT Has Developed Colour-Changing Tattoo Ink That Monitors Your Health in Real Time