Nýjasti geimsjónauki NASA mun leita að lífi í geimnum

James Webb geimsjónaukinn mun greina innrautt ljós frá stöðum sem þykja líklegir til að hafa lífvænlegar aðstæður eins og á tunglunum Evrópu og Enkeladusi.

Tölvuteiknuð mynd af James Webb stjörnusjónaukanum.

Vatnaveraldirnar á tunglum Júpíter og Satúrnusar eru taldar einna líklegastar til að hýsa líf í þessu sólkerfi fyrir utan jörðina en NASA hefur safnað gögnum um þá m.a. með geimförunum Cassini og Galíleó.

Nú mun nýjasti hátækni geimsjónauki NASA, kenndur við James Webb, kanna þessi svæði nánar m.a. með því að greina innrautt ljós frá þessum áhugaverðu svæðum í sólkerfinu okkar en innrautt ljós gefur til kynna fyrirbæri sem framleiðir hita sem er aðeins of vægur til að geisla frá sér sýnilegu ljósi.

Þá eru staðir á tunglunum Evrópu og Enkeladusi sem eru sérstaklega áhugaverðir þar sem mistur vatnsgufu og einfaldra lífefna hefur sést gjósa út frá yfirborði tunglanna. Þessar bunur eru taldar stafa af jarðvarma sem á að hita upp stóran hluta vatnsins á þessum tunglum.

Vísindamenn vonast til þess að gögn Webb sjónaukans muni hjálpa þeim að skilja úr hverju vatnsstrókarnir á Evrópu eru, hvort þeir séu úr ís eða heitri vatnsgufu og hversu heit þessi svæði eru í raun. Hátæknibúnaði á sjónaukanum er ætlað að greina lífefni á borð við metan, etan og metanól úr þessum vatnsstrókum en til þess þurfa strókarnir að vera virkir og ríkir af þessum lífefnum að sögn Geronimo Villanueva, vísindamanni hjá NASA.

Óvíst er hvort hægt verði að fullyrða um tilvist lífs á þessum stöðum, en þetta verkefni mun veita okkur frekari upplýsingar um hvaða staði verður mikilvægast að kanna frekar í framtíðarverkefnum á borð við Europa Clipper, þar sem áætlað er að skjóta geimfari að sporbraut um Evrópu einhvern tímann á þriðja áratugi þessarar aldar.

James Webb geimsjónaukinn

Þetta er ekki það eina sem James Webb sjónaukinn mun gera heldur eru markmið hans m.a. að ákvarða hvenær og hvernig fyrsta ljósið kviknaði í alheiminum, hvernig fyrstu vetrarbrautirnar mynduðust, hvernig stjörnur og sólkerfi verða til, og rannsaka litróf fjarreikistjarna úr öðrum sólkerfum með tilliti til efnisinnihalds, massa og aldurs.

Sjáðu meira um James Webb sjónaukann í ítarlegri umfjöllun á Stjörnufræðivefnum og í þessu magnaða myndbandi frá NASA.

Heimildir

  1. NASA: NASA’s Webb Telescope Will Study Our Solar System’s „Ocean Worlds“
  2. Futurism: How NASA’s New Telescope Will Advance Our Hunt for Life on Other Planets
  3. Stjörnufræðivefurinn: James Webb geimsjónaukinn